Of snemmt að fullyrða nokkuð um aðstæður til gangagerðar undir Fjarðarheiði

bormenn fjardarheidi agust14 0008 webOf snemmt er að fullyrða nokkuð um aðstæður til jarðgangagerðar undir Fjarðarheiði fyrr en frekari rannsóknir hafa farið fram. Ljóst er verkefnið verður snúið þar sem göngin verða ein lengstu veggöng í Evrópu. Fyrstu athuganir benda heldur til erfiðra aðstæðna.

„Menn telja að þetta sé hægt en það er umhugsunarvert hversu löng göng þetta verða," segir Gísli Eiríksson, forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar.

Gert er ráð fyrir að Fjarðarheiðargöng verði 13,5 kílómetra löng og í einni rennu. Þau yrðu þar með fjórðu lengstu veggöng í Evrópu.

Í fyrra var boruð ein rannsóknarhola niður á 430 metra dýpi. Til stóð að grafa niður á 500-550 metra dýpi en bormenn urðu að gefast upp út af erfiðum berglögum.

„Það getur alltaf komið fyrir að borinn festist í sprungu. Það var óheppni en það fengust minni upplýsingar úr holunni vegna þess," segir Gísli.

Hann segir heiðina annars svipaða og menn hafi reiknað með og bergið áþekkt því sem gerist í Norðfjarðargöngum. „Það kom ekkert sérstakt á óvart."

Ágúst Guðmundsson hjá Jarðfræðistofunni ehf. sem unnið hefur að rannsóknum á Fjarðarheiði segir borunina í fyrra heldur hafa bent til að bergið væri erfitt. „Síðustu athuganir benda til fremur erfiðra aðstæðna en þær eru alls ekki afleitar."

Bæði Gísli og Ágúst leggja áherslu á að frekari rannsókna sé þörf áður en nokkuð sé hægt að fullyrða um aðstæður til gangagerðar. „Þessi hola segir ekki mikið ein og sér," segir Gísli.

Í yfirlýsingu sem bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar sendi frá sér í vikunni var fullyrt að rannsóknir fyrir gangagerðina hefðu „gengið vel til þessa" og þegar liti út fyrir „ákjósanlegar aðstæður til gangagerðar." Sérfræðingarnir taka ekki undir þá fullyrðingu.

„Ég veit ekki á hverju hún er byggð. Við erum ekki komin það langt," sagði Gísli þegar Austurfrétt bar fullyrðinguna undir hann.

„Það er alltof snemmt að tjá sig sterklega um aðstæður á einn hátt eða annan en það er ekkert komið fram sem styður þessa fullyrðingu. Það á eftir að skoða þetta meira og dýpra," svaraði Ágúst.

Ekkert er borað í sumar aðrar athuganir eru í gangi svo sem jarðfræðiathuganir á yfirborði, mengun frá jarðgangagerðinni og á öryggismálum ganganna.

„Þetta verða löng göng og því er eðlilegt að taka öryggismálin til umhugsunar og það snemma," sagði Gísli.

Mynd: Bormenn að störfum á Fjarðarheiði í fyrra.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.