Fjárskortur í lögreglunni: Þrjá menn vantar upp á eðlilega mönnun

Fjárskortur í lögreglunni: Þrjá menn vantar upp á eðlilega mönnunLögregluþjónar í umdæmi lögreglunnar á Seyðisfirði eru sex talsins en ættu að vera níu miðað við stærð umdæmisins. Þrátt fyrir þetta er reksturinn í járnum. Yfirlögregluþjónn segir miklar kröfur um sértekjur eitt stærsta vandamálið.

Aðspurður segir Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjónn í Seyðisfjarðarumdæmi: „Það eru 3-4 lögregluembætti á landinu sem búa við óeðlilega sértekjukröfu og við erum eitt þeirra. Við eigum að afla okkur um níu milljóna króna í sértekjur og undir því getum við ekki staðið.“ Hann segir að yfirvöldum hafi verið bent á þetta en leiðrétting ekki fengist „þrátt fyrir ítrekaðar óskir.“

Sértekjur nánast engar

Embættið hafið töluverðar sértekjur á meðan framkvæmdum við Kárahnjúka stóð svo sem við fylgdir með sprengiefnaflutningum og þungaflutningum. Einnig komu sértekjur út á tollinn þegar hann tilheyrði embættinu.

Í fyrra var einn stærsti sértekjuliðurinn vegna aðstoðar við kvikmyndatöku Ben Stillers og kvikmyndatökulið á Seyðisfirði. „Við fengum 300-400 þúsund út úr því en það er langt frá þessum 8,7 milljónum sem okkur var ætlað að afla á síðasta ári“

Í dag eru sértekjurnar nánast engar og ekki í neinu samræmi við kröfurnar. Óskar segir reksturinn í járnum og það kemur niður á löggæslunni sjálfri.

Þriðjung vantar upp á eðlilega þjónustu

Þegar mest var störfuðu tíu lögregluþjónar hjá embættinu. Í dag eru þeir sex en eiga í raun að vera níu, svo sem vegna stærðar og umfangs embættisins.

„Embættið gæti aldrei borið það fjárhagslega, eins og staðan er í dag, að vera með þessa níu menn. Okkur vantar þriðjung af liðinu en samt er reksturinn í járnum,“ segir Óskar og bætir við að útlit sé fyrir að halli verði á rekstrinum í ár.

Reynt hefur verið að halda viðverutíma óskertum en á móti kemur að lögregluþjónarnir eru frekar einir á vakt. „Menn hafa ekki styrkingu hver af öðrum og það skapar hættu og óöryggi út af fyrir sig.“

Þá er umferðareftirlitið minna. „Við keyrðum tæplega 100.000 kílómetra í fyrra og útlit er fyrir að við keyrum 95.000 kílómetra á þessu ári. Ef við ættum að stunda eðlilega, hreyfanlega löggæslu þyrftum við að keyra 120-125 þúsund kílómetra á ári.“



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar