„Það er gott að lesa“: Þjóðarsáttmáli um læsi undirritaður á Austurlandi á morgun

illugiÁ morgun kemur Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra til Austurlands og skrifar undir Þjóðarsáttmála um læsi á Egilsstöðum og í Neskaupstað. Þjóðarsáttmálinn er nýtt verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins og er markmið þess að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns.

Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun í kjölfar Hvítbókar um umbætur í menntun. Framlag ráðuneytisins verður í formi ráðgjafar, stuðnings, lesskimunar og aukins samstarfs við foreldra.

Þjóðarsáttmáli um læsi er í senn yfirlýsing og samningur við hvert sveitarfélag í landinu um sameiginlegan skilning á mikilvægi læsis og að unnið verði eftir fremsta megni að því marki að a.m.k. 90% nemenda í hverju sveitarfélagi geti lesið sér til gagns árið 2018 en landsmeðaltalið núna er um 78%.

Í upplýsingaefni um verkefnið segir að lestrarfærni sé forsenda virkrar þátttöku í lýðræðissamfélagi en bágur lesskilningur geti haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með atvinnutækifæri síðar meir.

Þá segir ennfremur að alþjóðlegar kannanir sýni að Íslendingar búa við gott menntakerfi, þar sem helstu styrkleikar eru jafn námsárangur milli skóla, vellíðan nemenda og sveigjanlegt skólakerfi með lítilli miðstýringu. Þó valdi það miklum áhyggjum að lesskilningur hafi versnað og að við lok grunnskóla geti of stór hluti barna ekki lesið sér til gagns. Ástæðan sé ekki augljós en vafalaust sé um að ræða flókið samspil margra þátta og því mikilvægt að snúa vörn í sókn.

Ráðherra undirritar sáttmálann klukkan 12:00 á morgun í Safnahúsinu á Egilsstöðum og í Grunnskóla Norðfjarðar kl. 14:30.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar