Læknir: Staðsetning flugvallarins er spurning um líf eða dauða
Staðsetning flugvallar Reykjavíkur getur skipt sköpum þegar um bráð sjúkratilfelli er að ræða af landsbyggðinni. Einn til tveir tímar gætu bæst við flutningstímann ef flugvöllurinn verður færður.„Ég er ekki í vafa um að það hefur skipt lífi eða dauða að flugvöllurinn er þarna en ekki í Keflavík. Ég veit um tvö tilfelli héðan þar sem skipti miklu máli að flugvöllurinn var nálægt spítalanum. Í öðru tilfellinu er ég 100% viss,“ segir Baldur Friðriksson, yfirlæknir á Vopnafirði.
„Staðsetning flugvallarins skiptir heilmiklu máli, sérstaklega í sambandi við alvarlega veikt fólk. Við þurfum að senda héðan hjartatilfelli, fólk með alvarlega höfuðáverka og fjöláverka.“
Tveir tímar í viðbót frá Keflavík
Umræðan um flutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni er sífellt í gangi. Hann stendur á verðmætu byggingarland sem myndi nýtast við þéttingu byggðar í borginni. Á móti kemur nálægð hans við helstu þjónustustofnanir, svo sem Landsspítalann við Hringbraut.
„Það sem manni finnst menn ekki alltaf skilja er hvernig tíminn skiptir sköpum við bráð veikindi. Það tekur 90-120 mínútur að fá vél á Vopnafjörð og flugið suður tekur 75 mínútur. Því geta liðið 3-4 tímar frá því að atburðurinn á sér stað þar til sjúklingurinn kemst á spítala,“ segir Baldur.
„Ferðalagið verður aldrei styttra en 5-6 tímar ef farið er til Keflavíkur. Flugið er lengra og svo þarf að keyra til baka. Það munar um klukkutíma í viðbót. Fyrir utan að þú gerir ekki mikið fyrir slasað fólk í sjúkrabíl í forgangsakstri.“
Við þurfum hraðann
Að meðaltali eru tvö sjúkraflug til Vopnafjarðar í mánuði. „Þetta getur verið misjafnt. Einu sinni liðu sex mánuðir á milli tilfella en ég hef líka þurft að senda tvö sama daginn.“
Annar kostur er að senda sjúklinginn með bíl á Akureyri sem tekur um tvo tíma í forgangsakstri. „Ef viðkomandi er með mikla verki eða þarf vöktun þá pöntum við frekar vélina.“
Þyrluflug hefur verið nefnt sem annar kostur í sjúkraflugi. Baldur segir þyrlurnar góðar en þær séu að mörgu leyti góðar. Þær séu hins vegar hægfara.
„Þyrlan er góð að því leyti að hún getur lent við ýmsar aðstæður sem flugvélin getur ekki. Það er samt ekki endilega það sem við þurfum þegar við erum með bráðveikt eða slasað fólk. Við þurfum hraðann.“
Læknirinn strandaglópur í Reykjavík
Margvísleg þróun hefur orðið á sjúkrafluginu í gegnum tíðina. Undanfarin ár hafa læknar komið með vélunum þegar þess hefur þurft. Það er mikil breyting til batnaðar því þá þarf læknirinn ekki að fara úr héraði og skilja það eftir án þjónustu.
„Ég fór alltaf með sjúklingnum. Fyrstu árin var flogið með mann til baka en það kostaði peninga sem Tryggingastofnun neitaði að borga og við urðum strandaglópar. Kollegi minn stóð til dæmis á stuttbuxunum í strigaskóm með 100 kall í vasanum í rigningu í Reykjavík eftir að hafa farið héðan í sól.
Eins gat maður þurft að bíða eftir áætlunarflugi daginn eftir. Á meðan var héraðið læknislaust. Nú kemur alltaf sjúkraflutningamaður með og læknir ef þarf.“
Mynd: Baldur lengst til vinstri, sýnir frambjóðendum til Alþingis heilsugæsluna á Vopnafirði.