Vigdís segist hafa mismælt sig er hún sagði að Norræna fái kannski annan ferjustað

seydisfjordur norraenaUmræðuþátturinn Stjórnarráðið var á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN í gærkvöldi. Willum Þór Þórsson og Ásmundur Friðriksson, alþingismenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fara með þáttarstjórn og gestur þeirra í gærkvöldi var Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins.

Í þættinum ræddu stjórnarþingmennirnir þrír um hin ýmsu málefni og fóru yfir það helsta sem er á dagskrá stjórnmálanna á Íslandi í dag. Til að mynda var rætt um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, samgöngumál og ferðaþjónustu.

Einhverjir urðu eflaust undrandi er Vigdís Hauksdóttir lýsti yfir framtíðarsýn sinni um ferðamennsku á Íslandi. Þar sagði hún meðal annars að verið væri að leggja drög að því að ferjan Norræna, sem siglir til Seyðisfjarðar, fái kannski annan ferjustað.

Orðrétt sagði Vigdís: „Framtíðarmelódía mín varðandi ferðamennskuna er að það verði alþjóðaflug til Keflavíkur, Akureyrar og Egilsstaða. Nú svo er verið að leggja drög að því að Norræna kannski fái annan ferjustað. Þannig að tækifærin eru gríðarleg.“

Sjá má þáttinn á vefsíðu ÍNN hér.

Segist einfaldlega hafa mismælt sig
Í gærkvöldi birti Vigdís stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hún sagði að orðaval sitt í þættinum hefði verið ónákvæmt.

„Ég vil taka það fram eftir að ég fékk upphringingu að austan - að ég var mjög ónákvæm í orðavali í lok þáttarins á Ínn varðandi samgöngumál. Ég styð bættar samgöngur og jarðgöng undir Fjarðarheiði m.a. til að tengja Norrænu enn betur við Austurland allt - eins og bæjarstjórn Seyðisfjarðar og samtök sveitarfélaga á Austurlandi hafa marg ályktað um,“ segir formaður fjárlaganefndar á samskiptasíðu sinni.

Blaðamaður Austurfréttar hringdi í Vigdísi í dag til að forvitnast nánar um málið, en Vigdís sagðist ekki hafa neitt frekar um málið að segja en það sem fram kæmi á Facebook-síðu sinni. Hún sagðist einfaldlega hafa mismælt sig í þættinum á ÍNN.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar