Elsta hús Neskaupstaðar flutt á nýjan stað

gamla ludvikshusidEigna- skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar samþykkti á síðasta fundi sínum að úthluta sveitarfélaginu lóð að Þiljuvöllum í Neskaupstað með það fyrir augum að flytja þangað Gamla Lúðvíkshúsið.

Húsið er kennt við Lúðvík Sigurðsson, kaupmann og útgerðarmann, sem þar bjó lengi eða allt þar til hann flutti í annað hús sem var þá nefnt Nýja Lúðvíkshúsið til aðgreiningar.

Það var Norðmaður að nafni Ole Ibs Hansen sem upphaflega kom með húsið tilhöggvið frá Noregi árið 1881 og var það reist sem síldveiðihús inni á Nesströnd. Sveinn Sigfússon keypti húsið árið 1885 og flutti það út á Nes við Norðfjörð þar sem hann opnaði fyrstu norðfirsku verslunina og hefur það staðið þar síðan sem nú heitir Nesgata 20a.

Málefni hússins hafa lengi verið í deiglunni, en árið 2009 var haldinn fundur áhugafólks um verndun hússins. Á fundinum var samþykkt að stofna samtök um endurgerð hússins og hafa þau samtök unnið að endurgerð hússins að undanförnu, en það verk hefur verið unnið undir eftirliti Minjastofnunar. Endurgerð hússins var eitt af þeim verkefnum á sviði verndar sögulegra minja sem hlaut styrk frá forsætisráðuneytinu árið 2013, alls tíu milljónir króna.

Jón Björn Hákonarson, formaður eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar segir að málið hafi verið unnið í góðu samstarfi þessara aðila og sveitarfélagsins. Sveitarfélagið á húsið og mun það verða svo áfram.

„Hollvinir hússins hafa unnið að því að undanförnu að rífa innan úr húsinu það sem er ónýtt og síðan lá fyrir að það þyrfti að lyfta því til að endurgera grunninn. Í ljósi þess var farið að ræða þann möguleika að flytja húsið á annan stað þar sem það færi betur.

Þarna á Þiljuvöllum var ekki áður gert ráð fyrir lóð en allir aðilar málsins voru sammála um að húsið gæti sómt sér vel þarna. Sérstaklega þá í samhengi við Þórsmörk, sem er annað gamalt hús sem er verið að endurgera og stendur þarna skammt frá.

Nefndin samþykkti þess vegna að stofna þarna nýja lóð og taka hana undir húsið. Við gerum ráð fyrir að það verði flutt þangað í haust, að því gefnu að nægjanlegt fé verði til að klára framkvæmdir utanhúss í sömu lotu.“

Mynd 1: Gamla Lúðvíkshúsið fremst á myndinni. Fengin af www.fjardabyggd.is.
Mynd 2: Gamla Lúðvíkshúsið er nr. 10 á myndinni. Hún birtist í Bliki, Ársriti Vestmannaeyja, árið 1969. Fengin af www.heimaslod.is.

gamla ludvikshusid 3

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar