Álið er iðnaðarleir

gardar eyjolfsson webAusturbrú stóð nýverið fyrir málstofunni „Áframvinnsla á áli, möguleikar og tækifæri" í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði.

Á málstofunni var fulltrúum iðnfyrirtækja og hönnunarsamfélagsins á Austurlandi stefnt saman við frumkvöðla til að ræða um hráefnið ál og mögulega áframvinnslu þess.

Mikill áhugi var á málstofunni og þétt setið í salnum. Við setningu fundarins ræddu þau Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls og Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar um þá möguleika sem skapast með Álklasanum sem nýlega var stofnaður. Markmið hans er að efla samkeppnishæfni fyrirtækja í klasanum og auka sýnileika, rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði.

Meðal fyrirlesara var Garðar Eyjólfsson, lektor í hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Garðar er eini Íslendingurinn sem er menntaður í samhengisfræðilegri hönnun og segir hann greinina ganga út frá því að ekki séu til nein fög, heldur að skapandi einstaklingar rannsaki ákveðið samhengi og hægt og rólega sé dregið út úr þeirri vinnu það virði sem hentar.

Á málstofunni fjallaði Garðar um það hvernig hönnun getur kveikt hugmyndir um notkunarmöguleika innan samfélagsins þannig að hægt sé að áframvinna hráefni í nýjar vörur.


Heillandi og undarleg saga í senn

Garðar er mikill áhugamaður um ál og þá sérstaklega sögu þess. „Ég heillaðist af þessari geimveru sem kom til landsins. Að báxítið sé flutt hingað alla leið frá Suður-Ameríku og við dúndrum í það rafmagni af hálendinu, þetta er bæði heillandi og undarleg saga í senn. Ég fékk mikinn áhuga á þessu og kafaði ofan í efnið. Að mörgu leiti fannst mér nóg komið, sömu rökræðurnar höfðu farið í hringi ár eftir ár í samfélaginu. Ég ákvað að ráðast á þetta með opnum hug en staðreyndin er að álframleiðsla er hér og hvernig getum við nýtt hana á jákvæðan hátt."


Hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum

Garðar hefur komið reglulega austur til þess að taka þátt í ýmsum verkefnum, meðal annars samstarfsverkefninu Norðaustan 10.

„Þar var lítill hópur hönnuða sem vann saman en áhersla var lögð á verkefnið sjálft og tilraunamennsku í stað þess að miða að því að út úr vinnunni kæmu ákveðnar vörur. Þar buðum við álið velkomið inn í hina heilögu efnamenningu landsins og blönduðum því saman við lerki, hreindýraleður og fleira.

Ál er í rauninni magnað efni, svokallaður iðnaðarleir sem hægt er að gera allt með en íslensku efnin eru bæði erfiðari og illmótanlegri. Samblöndun á þessu tvennu virkar því vel þar sem álið hjálpar staðbundnu efnunum okkar og ég sé mikla möguleika til áframvinnslu áls hér heima með þessum hætti."


Mikilvægt að staðfæra hugmyndir

Garðar bindur miklar vonir við álklasann. „Hingað til höfum við tekið hógvær skref en það er vonandi að breytast núna. Samt sem áður þarf þó að byggja þetta hægt og rólega upp, setja sterkan ramma með skýrum forsendum og setja saman hóp sem vinnur með fyrirtækjum án þess að einblína á einhverja lokaútkomu.

Við erum of gjörn á að taka hugmyndir annars staðar frá án þess að staðfæra þær. Það er akkúrat fegurðin í ferðalaginu, að sjá að hlutirnir geta breyst algerlega þegar þeir eru hugsaðir út frá staðsetningu, kröftum og þekkingu tiltekins staðar og geta gefið venjubundnu efni sem álið er nýja möguleika."

Ljósmynd: GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar