Melarétt frestað til sunnudags vegna þoku í Rananum

lombMelarétt í Fljótsdal hefur verið frestað um einn dag og réttað verður á sunnudag í stað laugardags, vegna tafa við smalamennsku. Þoka í Rananum hefur verið til vandræða fyrir smalamenn að sögn Þorvarðs Ingimarssonar, smalastjóra.

„Það var bara þoka og menn töfðust og það þurfti að seinka um einn dag. Það var mikil þoka seinnipartinn í gær á smalasvæðinu sem kallað er Rani, í kringum Eyvindarfjöllin yfir á Jökuldal. Því var ekkert um annað að ræða en bara að fresta þessu,” segir Þorvarður í samtali við Austurfrétt.

„Smalamennirnir villtust eitthvað í Rananum í gær í þokunni og töpuðu áttum en það þurfti nú ekki að kalla út leit sem betur fer. Þeir verða fjóra daga þarna í Rananum í staðinn fyrir þrjá. Ég hef reyndar ekkert frétt af því hvernig þeim gengur í dag en þetta hlýtur að hafast.“

Þorvarður segir féð koma í ágætis standi af fjalli. „Mér sýnist þetta líta ágætlega út, sjálfsagt eru lömbin eitthvað léttari en í fyrra en mér sýnist þetta þó líta ágætlega út sem er hérna inni á afréttinni.

Gróðurinn er góður eins og er og þær eru ekkert viljugar að fara heim, en þetta gengur bara vel, þannig séð.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.