Flúor í grasi í Reyðarfirði um 36% minni í sumar

Alver0820136115Flúor í grasi í Reyðarfirði fer minnkandi þriðja árið í röð, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Alcoa Fjarðaáli. Þar segir að flúorinn hafi verið 36 prósentum minni nú heldur en sumarið 2014, en það sumar hafi einnig dregið úr flúor miðað við sumarið 2013. Meðaltal nýliðins sumars var 19,7 µg samanborið við 30,8 µg árið 2014 og 37,8 µg sumarið 2013.

Alls eru framkvæmdar sex mælingar á hverju sumri: tvær á mánuði í júní, júlí og ágúst. Meðaltal þessara mælinga á flúormagni í grasi er síðan borið saman við viðmiðunarmörk sem sett eru í vöktunaráætlun álversins, en þau eru 40 µg F/g gras á ársgrundvelli. Þau mörk segja til um hvort frekari eftirfylgni og rannsókna er þörf eða ekki.

Í fréttatilkynningunni segir að Fjarðaál sé meðal þeirra álvera sem standa sig best á heimsvísu hvað varðar magn mengandi efna í útblæstri og af öllum álverum Alcoa sé magnið minnst hjá Fjarðaáli.

„Við erum afar ánægð með niðurstöður sumarsins og þann árangur sem náðst hefur. Starfsfólkið hefur lagt sitt af mörkum til að ná sífellt betri árangri en ytri aðstæður sem við höfum ekki stjórn á, svo sem veður, hafa einnig áhrif á flúor sem mælist í grasi,“ segir Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls.

Hann segir ennfremur mjög ánægjulegt að sjá staðfestingu þess hve vel hefur gengið enda séu umhverfismál og velferð samfélagsins ávallt í fyrirrúmi í stefnu fyrirtækisins.

Í fréttatilkynningu Alcoa Fjarðaáls segir jafnframt að gildin fyrir flúor í grasi hafi verið mun lægri í sumar en viðmið fyrir grasbíta segja til um. Síðar í haust verði sýnum safnað úr heyi sem aflað var í Reyðarfirði í sumar og þá verði hægt að sjá hvert flúorinnihaldið er í þeirri fæðu sem dýrin neyta á ársgrundvelli.

Þá kemur einnig fram að samkvæmt skoðunum og rannsóknum dýralækna hafi til þessa engar vísbendingar komið fram sem gefa til kynna að flúor í Reyðarfirði hafi haft áhrif á grasbíta.

„Starfsfólk Fjarðaáls mun áfram vinna að stöðugum umbótum enda hvílir sú réttmæta skylda á Alcoa að lágmarka sem kostur er þau áhrif sem starfsemin hefur á umhverfið. Að þvi vill Alcoa vinna með ábyrgum og sjálfbærum hætti, hér eftir sem hingað til,“ segir að lokum.

Mynd: Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.