Séra Davíð á Kollaleiru næsti biskup kaþólikka á Íslandi

david tencer pixludFrans páfi skipaði í dag Davíð Tencer, sóknarprest kaþólska safnaðarins á Reyðarfirði, sem nýjan biskup kaþólikka á Íslandi. Hann tekur við embættinu í lok október.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá kirkjunni í dag. Um leið samþykkir páfi afsögn Péturs Bürcher biskups af heilsufarsástæðum en hann hefur verið biskup á Íslandi frá árinu 2008.

Davíð er fæddur í Slóvakíu 18. maí árið 1963 og hlaut prestvígslu þar árið 1986. Hann þjónaði sem slíkur næstu þrjú ár á eftir en gekk í reglu kapúsína árið 1990.

Hann kom til Íslands árið 2004, var skipaður aðstoðarprestur í Maríusókn í Breiðholti í Reykjavík og hóf um leið íslenskunám. Árið 2007 var hann skipaður sóknarprestur á sókn heilags Þorláks á Reyðarfirði. Hann er félagi í prestaráði og ráðgjafanefnd Reykjavíkur­biskupsdæmis.

Kaþólska kirkjan á Íslandi, eða Reykjavíkurbiskupsdæmi, var stofnað árið 1948. Um 13.000 kaþólikkar eru skráðir á Íslandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar