Steingrímur J: Aðalvandamálið er að menn greiða annað slagið atkvæði eins og vitleysingar
Helsta vandamál Alþingismanna er hvernig þeir greiða atkvæði, ekki að þeir sitji hjá segir oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi. Búið er að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum þannig að hægt sé að byggja upp til framtíðar. Þar eigi að setja velferðarkerfið í forgang.„Þegar við tókum við var hér allt í rúst. Eitt stærsta verkefnið lenti á mínum herðum og það var að koma í veg fyrir að ríkissjóður yrði gjaldþrota.
Í dag er hann nánast rekinn án halla og við getum farið að skila því til baka sem við höfum skorið niður á næstu árum. Þá viljum við að velferðarkerfið verði sett í forgang,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon á opnum fundi í Menntaskólanum á Egilsstöðum fyrir skemmstu.
Hann sagði það forsendu velferðar og hagvaxtar að hafa náð að koma ríkisfjármálunum í jafnvægi. Steingrímur sagðist hafa verið „sammála Ögmundi Jónassyni um að neita Huang Nubo um að kaupa Grímsstaði. Ég er á móti því að menn fái að kaupa upp stór landssvæði.“
Aðspurður að því hvort hann teldi að banna ætti þingmönnum að sitja hjá við atkvæðagreiðslur svaraði Steingrímur: „Aðalvandinn er að menn greiða annað slagið atkvæði eins og vitleysingar. Það þarf að laga en ekki hjásetuna!“
Þá þakkaði hann formanni Sambands ungra framsóknarmanna fyrir að hefja fyrirspurnartímann á því að spyrja flokkana út í hvað þeir ætli að gera við hugsanlegan hagnað vogunarsjóða af íslensku bönkunum.
„Ég vil þakka Framsóknarflokknum fyrir að spyrja Framsóknarflokkinn út í stefnumál hans og gefa okkur hinum tækifæri til að svara þeim!“
Hægt er að hlusta á fundinn í heild sinni á vef Útvarps Seyðisfjarðar.