Vilja aðgerðaáætlun um millilandaflug um Egilsstaði og Akureyri: Þörf á að dreifa ferðamönnum
Íslensk stjórnvöld verða að koma markvissar að kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum til að auka möguleika á millilandaflugi um þá. Þingsályktunartillaga liggur fyrir Alþingi um að gera aðgerðaáætlun.Átta þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata standa að tillögunni sem lögð var fram í síðustu viku en Kristján L. Möller, þingmaður Norðausturkjördæmis, er fyrstu flutningsmaður hennar.
Samkvæmt henni skulu innanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggja fyrir Alþingi, eigi síðar en í lok janúar á næsta ári, áætlun um aðgerðir sem ráðast þarf í til að reglubundið millilandaflug um flugvellina tvo geti hafist.
Í greinargerð með tillögunni er meðal annars komið inn á að þörf sé að dreifa ferðamönnum betur um landið til að minnka álag á fjölförnum stöðum sunnanlands.
Um leið myndi flugið gjörbreyta möguleikum ferðaþjónustunnar á svæðunum, lengja ferðamannatímabil, efla atvinnulíf þar og opna nýjar leiðir fyrir íbúa svæðisins til ferðalaga.
Þar segir að um 97% ferðamanna til landsins komi í gegnum Keflavík, 1,8% með Norrænu til Seyðisfjarðar en aðrir með beinu flugi til Reykjavíkur eða Akureyrar.
Gagnrýnt er að stjórnvöld hafi lítið gert til að styðja við markaðssetningu annarra flugvalla en í Keflavík.
„Ljóst er að það má skrifa á reikning stjórnvalda að nýir áfangastaðir með flugi fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi, aðrir en Keflavík, hafa lítt eða ekki verið skoðaðir af alvöru; áhersla við opinbert kynningarátak fyrir ferðaþjónustu hefur svo að segja öll miðað að því að efla flug um Keflavíkurflugvöll."
Hvatt er á að stjórnvöld hugi sérstaklega að því að bjóða upp á hvatakerfi til að laða erlend flugfélög til staðanna, til dæmis sé hægt að fella niður eða lækkað opinber gjöld tengd flugrekstri. Það hafi verið gert með flugvelli á jaðarsvæðum í nágrannalöndunum.
Þá er kallað eftir að ríkið búi flugvellina þannig úr garði að þeir uppfylli kröfur um þjónustustig vegna aukinnar umferðar og ríkið móti sér framtíðarstefnu um millilandaflugvelli.
Í kafla um flugvöllinn á Egilsstöðum eru nefndir fleiri möguleikar en farþegaflug, svo sem fraktflug á Norðurslóðum, pólarflug og aðstoð við olíuleit.