Hollenska parið áfram í einangrun
Hæstiréttur Íslands staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð til 7. október yfir hollensku pari sem grunað er um tilraun til stórfellds innflutnings á fíkniefnum með Norrænu í byrjun mánaðarins.Parið kom til Seyðisfjarðar með ferjunni að morgni þriðjudagsins 8. september. Grunur mun hafa verið uppi um efnin og ákváðu tollverðir að leita í bifreiðinni.
Þá fannst „gríðarlegt magn" af MDMA eða Extacy, falið í varadekki, tveimur gaskútum og 14 niðursuðudósum, að því er segir í greinargerð lögreglustjórans á Austurlandi.
Maðurinn hefur játað að hafa vitað um tilvist efnanna en eiginkona hans segist ekkert hafa vitað. Maðurinn hefur staðhæft að konan hafi ekki vitað um efnin.
Farið er fram á gæsluvarðhaldið þar sem ætlað er að parið muni torvelda við rannsókn málsins og þau munu jafnvel reyna að komast úr landi.
Lögreglan hefur hafið viðamikla rannsókn, bæði á Íslandi og erlendis, sem búast má við að taki tíma. Því er farið fram á gæsluvarðhaldið.
Héraðsdómur staðfesti gæsluvarðhald til 7. október og skal parið sæta einangrun á meðan. Meint brot þeirra varðar allt að tólf ára fangelsi.