Vegamálastjóri: Tilbúinn að skoða hvort Norðfjarðargöng verði opnuð fyrr

nordfjardargong gegnumslag 0072 webHreinn Haraldsson, vegamálastjóri, segir að á næstu dögum verði rætt við aðalverktaka Norðfjarðarganga um hvort hægt séu að opna göngin fyrr en áætlað var. Hann segir gröft þeirra hafa gengið hraðar en menn hafi þorað að vona.

„Það er stórkostlegt að síðasta sprengingin sé að baki eftir svona stuttan tíma. Göngin eru hálfu ári á undan okkar áætlunum. Það átti enginn von á því.

Þetta er meiri hraði en almennt gerist við svona mannvirkjagerð. Við áttum von á að erfiðra yrði að komast hér í gegn. Jarðlögin og sérstaklega vatnið hafa verið okkur hliðhollari en við óttuðumst á tímabili en það var líka vel staðið að undirbúningnum hjá aðalverktakanum.

Þetta sagði Hreinn í samtali við Austurfrétt eftir að síðast haftið var sprengt í göngunum á föstudaginn var. Við það tækifæri skýrði innanríkisráðherra frá því að óskað hefði verið eftir því við Vegagerðina að kannað yrði hvort hægt yrði að ljúka verkinu fyrr en 1. september 2017, eins og áætlað er. Jafnvel hefur verið talað um verklok strax í desember á næsta ári.

„Það er bara rúmt ár þangað til en við munum skoða hvort við náum þessu tæknilega," svaraði Hreinn.

„Ef það gengur saman að verktakinn sé tilbúinn að hraða sínum verkþáttum og ráðherra tryggir að greiðslur komi inn fyrr þannig við getum greitt verktakanum fyrir verkið þá getur þetta gengið."

Hreinn telur ekki að verkið eigi að kosta meira þótt því verði hraðað. „Það er ekkert sem segir að verkið verði dýrara.Það er bara verið að tala um að flýta greiðslum og þar með opnun mannvirkisins ef allt gengur svona vel."

Hann varaði samt við að enn væri margt óunnið. „Þetta er eins og að byggja hús. Það er bara orðið fokhelt."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.