Bjartsýni um úrbætur á diskóljósunum á Eiðum á næstunni

gunnar orn gudmundsson ruvForstöðumaður dreifikerfis Ríkisútvarpsins segir vonast til að hægt verði að fá leyfi fyrir að skipta um ljósabúnað í langbylgjumastrinu á Eiðum innan tíðar. Bilaður ljósum með skærum, hvítum blikkljósum hefur valdið íbúum þar miklum ama.

„Samkvæmt alþjóðlegum reglum á að vera með hvít, blikkandi ljós á mastrinu á Eiðum. Við viljum fá rauð, hæg, blikkandi ljós eins og eru í Grindavík og Gufuskálum því þau virðast þola það betur að vera á heitu mastri í lítilli eyju í Norður-Atlantshafi."

Þetta sagði Gunnar Örn Guðmundsson, forstöðumaður dreifikerfis RÚV á opnum fundi um þjónustu stofnunarinnar á Egilsstöðum í gærkvöldi.

Ljósabúnaðurinn er yfirleitt bilaður þannig að ljósin blikka á alltof miklum styrk þannig að á myrkum kvöldum lýsist Héraðið upp í hvítum blossum sem eru sérstaklega ergjandi fyrir þá sem búa næst mastrinu.

Dýrar viðgerðir dugðu stutt

Gunnar Örn segir unnið að úrbótum í samvinnu við stöð ISAVIA á Egilsstöðum en ljósin eiga að vera til að vara flugumferð við. Ekkert er þó enn fasti í hendi.

„Við eigum eftir að fara í gegnum ýmsar þrautir þannig það er ekkert útséð um þetta en í fyrsta skipti í töluverðan tíma er ég bjartsýnn og vonandi verða einhver tíðindi af ljósunum á næstunni."

Ljósin hafa ekki bara verið íbúum á Eiðum til ama heldur líka starfsmönnum RÚV og rekstri stofnunarinnar. „Þegar ég byrjaði hjá RÚV fyrir rúmu ári hélt ég að þetta væri lítið mál og einfalt en vá – hvað ég hafði rangt fyrir mér.

Síðast þegar ráðist var í stóra viðgerð kostaði hún 19 milljónir króna og dugði í tvær vikur."

Keyptu varahluti í sjónvarpssenda á eBay

En það er ýmislegt annað sem huga þarf að í dreifikerfi RÚV. Síðasta vetur var til dæmis slökkt á hliðrænum sjónvarpsútsendingum og stafrænar teknar upp í staðinn við misjafnar undirtektir sumra.

„Það var ekki slökkt á hliðræna kerfinu út af mannvonsku eða nýjungagirni. Ástæðurnar voru ýmsar. Til dæmis áttum við að skila tíðnunum árið 2007 en tókst að draga það til 2015. Varahlutir voru illfáanlegir, við vorum til dæmis að kaupa þá á eBay."

Hann sagði að nýja dreifikerfið ætti að geta flutt meira gagnamagn auk þess sem það sparaði orku og opnaði möguleika á frekari uppbyggingu fjarskiptaneta, svo sem uppsetningu 4G senda.

Hjá RÚV er einnig unnið að því að koma almennum sjónvarpsútsendingum í háskerpu og opna á aðra stöð á landsvísu. Til þess þarf að skipta út búnaði innanhúss sem vonast er til að verði í vetur.

Þrekvirki að byggja upp dreifikerfið

Umræða hefur verið um framtíð gervihnattaútsendinga RÚV sem hafa skipt sjómenn og ákveðna staði á landi máli en Gunnar sagði framtíð þeirra útsendinga óráðna. Þá er unnið að því að fylla upp í síðustu blettina í útvarpskerfinu.

Gunnar sagði það hafa verið þrekvirki að byggja upp útsendingakerfi RÚV á sínum tíma. Útvarpskerfið hefði verið sett upp að stórum hluta upp úr 1930 og hluti þess kerfis væri enn í rekstri í dag.

Hann bar saman Ísland og Danmörku í því samhengi þar sem danska ríkisútvarpið væri alls með 18 senda en hið íslenska með 400. Þar af væru útvarpssendarnir hérlendis 193 en þrír í Danmörku.

Tilkostnaðurinn er líka ærinn. Dreifikerfi RÚV þjónar 99,9% landsmanna en Gunnar segir jafndýrt að ná til síðasta prósentustigsins og til hinna 99%. „Það er ótrúlegt að menn hafi þorað af stað í þetta."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.