Um 100 hreindýr eftir af kvótanum: Nýgræðingurinn breytti hegðun dýranna

joi guttEkki náðist að veiða 103 hreindýr af þeim 1274 sem fella átti þar til sumarveiðitímabilinu lauk þann 20. september. Seint gréri á heiðum í sumar þannig að dýrin eltu nýgræðingin upp lengur og komu síður niður undir lok tímabilsins.

„Þetta breytti tvímælalaust hegðun dýranna. Sumir veiðimenn hafa spilað inn á að ná dýrunum þegar kólnar á haustin og þau koma neðar í dalina en það gerðist ekki núna," segir Jóhann Guttormur Gunnarsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Leyft var að leyfa 630 tarfa en upp á það vantaði 41. Af 644 kúm náðust ekki 62. Jóhann segir að utan gróðurfarsins séu langir þokukaflar eftir 20. ágúst helstu skýringuna fyrir þeim dýrum sem urðu eftir. Eitt af því sem gerist þá er að erfiðra verður að fá leiðsögumenn því álagið er mikið í lokin.

Veiðimenn biðu líka því talað var um að dýrin væru rýrari þar sem sumarið kom seint. „Það er minni fita á törfunum núna og fallþungi þeirra lægri en í fyrra en það ár var mjög gott. Kýrnar eru yfirleitt mjög vænar því þær hafa verið í nýgræðingnum allt tímabilið."

Betra að borga allt í einu

Sú breyting varð á fyrir tímabilið að greiða þurfti allt leyfið í einni greiðslu. Jóhann telur það hafa gefist vel því færri hafi skilað inn leyfum eftir að tímabilið hófst en áður. Sem fyrr hafi gengið erfiðlega að koma út þeim leyfum sem skilað var undir lokin, einkum þar sem menn voru ekki bjartsýnir á veiðar í ljósi veðurspárinnar.

„Ég held þetta sé samt betra að öllu leyti. Menn eru búnir að taka ákvörðunina fyrr," segir Jóhann.

Minni ásókn í nóvemberveiðina

Í nóvember má svo veiða 138 kýr á svæðum 7, 8 og 9 sem ná yfir Djúpavoshrepp og sveitarfélagið Hornafjörð. Ásókn hefur samt verið minni í þá veiði heldur en á sumrin.

„Sú veiði er stutt frá vegum og bæjum og er því minni sportmennska og meiri kjötveiði. Sumum finnst það kannski ekki veiðiskapur."

Allir þeir sem sóttu um veiði í nóvember fengu úthlutað dýrum og reyndar var það svo að ekki var öllum leyfum úthlutað. Jóhann segir hæpið að auglýst verði eftir umsóknum í þau, frekar verði farið í þá sem sóttu um leyfi á svæðinu í sumar.

„Mér þykir líklegt að það verði notað til að bjóða mönnum leyfi. Það verður farið að skoða þetta áður en langt um líður."

Aðspurður um hvort því sem gekk af í sumar verði bætt við svarar Jóhann að erfitt sé um það að segja en vissulega sé svo að aðeins sé leyft að veiða ákveðinn hluta kúa í nóvember.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.