Ólöf Nordal: Reyfarakennd samskipti Valsmanna við Reykjavíkurborg

olof nordal sept15 0012 webInnanríkisráðherra segir málefni Reykjavíkurflugvallar vera í erfiðum hnút þar sem ríkið hafi eina stefnu og borgin aðra. Loforð borgarinnar til Valsmanna hafi sérstaklega flækt þau. Hún vill samt fara varlega í yfirlýsingar ef það skyldi koma til kasta ráðherra að úrskurða á einhvern hátt í málinu.

„Þetta mál er í mestu þvælu sem hægt er að setja nokkurt mál í," sagði Ólöf á opnun fundi sem Sjálfstæðismenn í Fjarðabyggð efndu til í síðustu viku.

Þar var hún spurð út í afstöðu sína til Reykjavíkurflugvallar og einkum fyrirhugaðrar lokunar þriðju brautarinnar þar, sem stundum hefur verið nefnd neyðarbraut.

Ólöf útilokaði ekki að hægt að reka flugvöllinn án brautarinnar en varasamt gæti verið að fórna henni. Hún upplýsti að hún hefði verið krafin um að loka brautinni.

„Það gæti orðið mikið hættuspil. Vilji borgaryfirvalda er skýr og ef við gefum eftir þá gæti það valdið okkur verulegum skaða. Ég vil ekkert gera með þriðju brautina gera fyrr en menn eru til í að ræða veru vallarins til lengri tíma."

Valsmenn í góðri trú

Útlit er fyrir að þrýstingur á brottför þriðju brautarinnar aukist enn frekar á næstunni en í vikunni var skýrt frá áformum um byggingu stærsta hótels landsins í Vatnsmýrinni, nánar til tekið á svæði sem kennt hefur verið við Valsmenn milli Nauthólsvíkur og Hlíðarenda. Hótelið á að vera tilbúið árið 2017.

„Samskipti Vals við borgina er efni í tíu bindi af reyfarakenndum sögum," sagði Ólöf og viðurkenndi að samflokksmenn hennar sem setið hafa fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn væru ekki þar undanskildir.

Hún gagnrýndi líka borgaryfirvöld fyrir að sjá bara eina hlið á flugvellinum. „Borgin vill ekki ræða hvað hún þénar á flugvellinum."

Á móti lýsti hún ákveðinni samúð með Valsmönnum. „Þeir voru í góðri trú því það var búið að skrifa undir mikið þegar ákveðið var að fara í þessar framkvæmdir.

Borgin hefur eina stefnu og ríkið aðra. Uppbygging á Valsreitnum flækið málið því þar blandast í það þriðji aðili með hagsmuni."

Hvassahraun geymt í möppunni

Ólöf sagðist annars varast að tjá sig of mikið um flugvöllinn og meðferð hans ef hún sem ráðherra þyrfti á einhverjum tímapunkti að úrskurða um málsmeðferðina.

Í sumar kom út skýrsla svokallaðrar Rögnunefndar þar sem bent var á Hvassahraun sem mögulegan framtíðarstað innanlandsflugs í landinu. Að mati Ólafar er ólíklegt að sá flugvöllur rísi.

„Hún er í möppunni," svaraði hún fyrst aðspurð um stöðu skýrslunnar en hélt síðan áfram. „Jafnvel þótt við segjumst skoða þetta geta liðið 30 ár þar til nokkuð gerist. Ég á í erfiðleikum að skilja hvað við eigum að gera með flugið í Hvassahrauni og Keflavík, einkum þegar er fleiri milljarða tuga uppbygging framundan í Keflavík."

Hún kallaði hins vegar eftir áframhaldandi samræðum í von um lausn. „Ég tel að við þurfum að hafa innanlandsflug í landinu og vil nálgast þetta mál þannig að við ræðum saman. Ég trúi ekki öðru en við getum leyst þetta mál."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.