Erfitt að ráða fréttamann í hálft starf: Fleiri en einn drógu umsóknirnar til baka

freyja dogg frimannsdottir ruv sept15Freyja Dögg Frímannsdóttir, svæðisstjóri RÚVAK, segir illa hafa gengið í hálfa stöðu fréttamanns sem auglýst var á Austurlandi í vor. Áfram sé hins vegar stefnt að ráðningu í stöðuna.

„Við vissum að það yrði erfitt að ráða í hálfu stöðurnar en við vildum taka þetta skref í stað þess að bíða," sagði Freyja Dögg á opnum fundi um stefnu Ríkisútvarpsins sem haldinn var á Egilsstöðum í vikunni.

Í vor voru auglýstar tvær hálfar stöður á Austurlandi og Suðurlandi auk 100% stöðu á Vestfjörðum. Ráða tókst fréttamenn fyrir sunnan og vestan en ekki austan.

Stöðurnar voru auglýstar í kjölfar þeirrar stefnubreytingar að leggja aukna áherslu á dagskrárgerð á landsbyggðinni. Í forgang var sett að vera með frétta-og dagskrárgerðarmenn í öllum landshlutum en hann vantaði fyrir vestan. Vonir standa hins vegar til að hækka starfshlutfallið annars staðar þegar fram líða stundir.

Ekki hvað sem er með fréttamannsstöðunni

Freyja viðurkenndi að stjórnendur RÚV hefðu viljað ganga lengra en það hefði ekki verið hægt innan þess fjárhagsramma sem stofnuninni er búinn. Staðan eystra var auglýst aftur síðsumars en ekki hefur enn verið ráðið.

„Við fengum fáar umsóknir og það voru fleiri en einn og tveir sem drógu umsóknir sínar til baka, meðal annars því þetta voru 50% stöður."

Hún viðurkenndi líka að miklar kröfur séu gerðar til fréttamanna en miklar skorður eru settar við hvers konar vinnu menn megi vinna á móti. Þá mega menn ekki hafa verið framarlega í stjórnmálastarfi á allra síðustu misserum. Hún bætti jafnframt við að ekki væri skylda að starfsmaðurinn byggi eða ynni á Egilsstöðum þar sem starfsstöðin RÚV er.

Hún sagðist samt bjartsýn á að það takist að manna stöðuna innan tíðar. „Það gerist vonandi á næstu vikum eða mánuðum. Það er brýnt að ráða en það verður líka að vera einstaklingur sem vill sinna starfinu og uppfyllir kröfurnar."

Aukið efni utan af landi

Hún sagði RÚV vinna í því að auka efni af landsbyggðinni eftir mikinn niðurskurð þar árið 2010 þegar staðbundnum útsendingum. Hún sagði niðurskurðinn ekki endilega hafa verið hlutfallslega meiri á landsbyggðinni heldur en fréttastofunni í heild en hann hefði sannarlega verið „mjög áþreifanlegur."

Ýmsar leiðir verða farnar til að auka sýnileika landsbyggðanna í öllum miðlum RÚV. Á næstunni fer af stað þátturinn Sögur af landi á Rás 1, fastar innkomur verða í Morgunvaktina, beinar útsendingar voru í fréttatímum í sumar. Unnið er að því að auka meðvitund um dagskrárgerð á landsbyggðinni í höfuðstöðvunum í Efstaleiti auk þess sem dagskrárstjórar útvarps hafa kallað eftir hugmyndum að þáttum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar