Áfangastaðurinn Austurland: Snýst ekki bara um upplifun ferðamanna heldur einnig ánægju íbúa
Svíinn Daniel Byström stýrir á morgun vinnustofu um hönnun Austurlands sem áfangastaðar í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Þar verður meðal annars kynnt könnun sem gerð var í sumar meðal íbúa og ferðmanna á styrkleikum og veikleikum fjórðungsins. Daniel segir viðhorf íbúa ekki skipta hvað síst í þessu samhengi.„Vissulega snýst þetta mikið um viðhorf ferðamannsins en það er líka mikilvægt að taka fram að þetta er byggðaþróunarverkefni. Við horfum mikið til íbúanna, að þeir hafi góðan stað til að búa á. Ánægður íbúi segir vinum sínum frá og er líklegur til að fá til sín gesti."
Hann segir eitt af því sem komið hafi í ljós í könnuninni að munur sé milli væntinga íbúa til þeirra sjálfra og upplifunar þeirra af því hvernig þeir standi undir þeim. „Þeir telja mikilvægt að vera gestrisna en upplifa sig ekki nógu gestrisna.
Í umræðum um byggðamál er gjarnan horft til atvinnuframboðs, launa og almannaþjónustu. Í könnunina að eystra og fleiri sambærilegum könnunum eru vísbendingar um að það séu ekki endilega þeir þættir sem skipti mestu máli.
„Oft er mönnum efst í huga hversu opið og hlýlegt samfélagið er, hvernig er persónuleiki staðarins. Hér búa margir sem eru nánir náttúrunni og útivist og hún skiptir þá meira máli heldur en að búa í borginni á góðum launum."
Hann segir mikilvægt að Austfirðingar vinni saman að mótun byggðarinnar. „Gestum er sama þótt hér séu 8 sveitarfélög. Þau eru ekki að keppa sín á milli heldur á heimsvísu."