Ólöf Nordal: Reiðum okkur ekki á orkufrekan iðnað umfram það sem orðið er

olof nordal sept15 0012 webÓlöf Nordal, innanríkisáðherra, spáir því að ekki verði frekari uppbygging í kringum orkufrekan iðnað á næstu árum hérlendis. Hún kallar eftir meiri langtímahugsun í stjórn efnahagsmála og aðhaldi í rekstri ríkisins.

Þetta kom fram í máli Ólafar, sem fyrir helgi tilkynnti framboð sit til varaformanns Sjálfstæðisflokksins á opnum fundi flokksmanna í Fjarðabyggð fyrir skemmstu. Þar var hún meðal annars spurð út í sýn sína á þróun Íslands næstu 20 árin.

Ólöf svaraði því að Íslendingar yrðu að horfa í kringum sig og spyrja sig að því hvort þeir telji sig stjórna áfram á grundvelli þeirra innviða sem til séu í landinu og eigin ákvarðana eða stóla á aðra.

Hún sagði afdráttarlaust að krónan yrði áfram gjaldmiðill Íslendinga. „Það bíður okkar að búa hér við íslenska krónu," sagði hún en kallaði um leið eftir mun meiri langtímahugsun í stjórn efnahagsmála.

Ekki dygði að hugsa til eins ár, eins og Íslendingar væru gjarnir á, heldur vildi hún fylgja fordæmi til dæmis Svisslendinga sem hugsuðu til 30 ára. „Það þarf að taka ákveðnari skref í stjórn efnahagsmála en við höfum gert."

Þarf að mennta þjóðina fyrir nýja atvinnu

Ólöf sagði Íslendinga líka þurfa að móta sér nýja stefnu í atvinnumálum. „Þar blasir við okkur nýr veruleiki. Ég við munum ekki reiða okkur á orkufrekan iðnað umfram það sem orðið er og ekki verði meira um virkjanir. Ástandið á erlendum mörkuðum er þannig.

Við byggðum upp okkar byggðakerfi í kringum orkufrekan iðnað en ég held að áherslan færist í mýkri atvinnugreinar, á þeirra grunvelli þeirra verði vöxturinn. Það mun líka hafa áhrif á menntunarstig og það þurfi að mennta þjóðina."

Ólög lýsti þeirri skoðun sinni að skynsamlegast hefði verið að ráðast í allar virkjanirnar sem fyrirhugaðar hafa verið í neðri hluta Þjórsár ef menn ætluðu að halda áfram að virkja en ekki væri víst að af þeim yrði.

Ólöf ræddi einnig utanríkismál og hvernig Íslendingar gætu tekist á við vaxandi óróa í Evrópu og flóttamannastraum. „Við tökum á móti fólki en við þurfum að vita hvert við stefnum með eigið land áður en við förum að bjarga heiminum."

Rússabannið ekki nógu vel unnið

Ólöf var spurð út í innflutningsbann Rússa á íslenskar sjávarafurðir í kjölfar viðskiptahindrana sem Íslendingar hafa stutt. Útlit er fyrir að bannið hafi umtalsverð áhrif í Fjarðabyggð.

Hún viðurkenndi að sjálfstæðismenn skiptist þar í tvær fylkingar. Hluti þeirra styddu bannið sem hluta af vestrænni samvinnu en aðrir teldu það litlu skila og skaða Íslendinga verulega. Hún taldi stuðninginn við viðskiptabann Evrópusambandsins og Bandaríkjanna ekki nógu vel hugsaðan af hálfu ríkisins.

„Þetta mál var ekki nógu vel unnið. Ég segi það eins og er," sagði Ólöf og bætti við að fara yrði þær ákvarðanir sem ráðamenn tækju og hvað þær þýddu fyrir landsmenn.

Verðum að hemja væntingarnar

Hún lýsti áhyggjum af áhrifum launahækkana í samfélaginu að undanförnu á efnahagslífið og spurði hvort Seðlabankinn gæti ekki „farið að horfa í hina áttina" með stýrivaxtabreytingar sínar.

„Við erum í viðkvæmu ástandi og verðum að hemja væntingarnar. Þar reynir á agann og okkur hefur gengið óskaplega misvel að ná tökum á aganum hjá okkur sjálfum en svona erum við gerð.

Launahækkanir um tugi prósenta reyna á þolrifin og við gætum lent aftur inn í þensluástand." Hún varaði við að það gæti lent harkalega, þó ekki eins og 2008. „Við erum ekki lengur með þetta bilaða bankakerfi."

„Þurfum við allar þessar stofnanir?"

Hún sagði kjarasamninga setja strik í ríkisreikninginn þannig að skera þyrfti niður á öðrum liðum, svo sem í samgöngumálum. Ákveðið hafi verið að gera átak í húsnæðismálum og ekki gera kröfu um hagræðingu í heilbrigðis-, velferðar- og menntamálum en meira þurfi að hagræða á öðrum fjárlagaliðum í staðinn.

Hún sagði ríkisstjórnina hafa tekið mikið til í ríkisfjármálum og sýna þyrfti árangur af því á seinni hluta kjörtímabilsins. Áfram megi þó skoða rekstur ríkisins.

„Ég nota tvö orð allan daginn: af hverju? Mér finnst ekki nærri nógu mikið gert í að skera niður þetta ríkisbákn. Er ekki í lagi að hætta að gera eitthvað? Þurfum við allar þessar stofnanir?"

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.