Hætt við skerðingar: Vantar rúman metra í Hálslón
Landsvirkjun hefur ákveðið að draga til baka takmarkanir á afhendingu rafmagns til kaupenda ótryggrar orku sem boðaðar voru vegna lágrar stöðu í miðlunarlónunum síðsumars.Í gær mældist vatnsyfirborðið í lóninu í 623,8 metra hæð en lónið fer á yfirfall í 625 metra hæð og telst þá orðið fullt.
Í lok ágúst vantaði hins vegar um 20 metra í lónið og var viðskiptavinum þá tilkynnt að líklega þyrfti að draga úr raforkuframboði í vetur.
Septembermánuður var hins vegar mjög hlýr sem leiddi til jökulleysinga og þar með mikils vatnsrennslis inn í lónið.
Mánuðurinn nær samt ekki fyllilega að vega upp slaka sumarmánuði en ekki er talið að grípa þurfi til takmarkana nú. Veðurfarið í vetur ræður á móti hvort takmarka þurfi afhendingu í byrjun næsta árs.