Hvernig virkar Lundúnaflugið?
Ferðaskrifstofan Discover the World kynnti í dag formlega áætlun sína um að fljúga tvisvar í viku á milli Egilsstaða og Gatwick flugvallar við London næsta sumar. Um leið var undirritað samkomulag við ferðaþjónustufyrirtækin Tanna Travel og Fjallasýn um þjónustu við ferðamenn og sölu á flugmiðum innanlands.Fyrsta flugið verður farið laugardaginn 28. maí og það síðasta laugardaginn 24. september en flogið verður alla laugardaga og miðvikudaga þar á milli.
Farið er í loftið frá Egilsstöðum klukkan 13:10 og lent á Gatwick klukkan 16:55 að staðartíma. Vélin staldrar þar stutt við og fer aftur í loftið klukkan 19:00 og lendir á Egilsstöðum klukkan 20:55 sama kvöld.
Flogið verður með Boeing 737-700 frá AirBaltic þannig að ferðir þeirra eru í raun lengri. Vélarnar fljúga milli Riga í Lettlandi og Keflavíkur þannig að í boði verður einnig flug á milli Egilsstaða og Keflavíkur.
Farið er úr Keflavík klukkan 11:10 að morgni og lent á Egilsstöðum klukkustund síðar. Um kvöldið fer vélin frá Egilsstöðum klukkan 21:55 og lendir í Keflavík 22:55.
Hægt verður að kaupa einungis miða þá leið. Í samtali við Austurfrétt í dag sagði Clive Stacey, eigandi Discover the World, að engan vegin væri ætlunin að fara í samkeppni í innanlandsflugi enda flugið aðeins í boði tvisvar í viku.
Ætlunin sé að bjóða upp á fleiri valkosti, til dæmis fyrir Austfirðinga sem vilji fljúga beint til Keflavíkur og hugsanlega nýta sér þaðan Ameríkuflug eða gefa ferðamönnum kost á tíu tíma stoppi á Austurlandi sem hluta af alþjóðlegri flugleið. Á þessum tíma megi fara í styttri ferðir frá Egilsstöðum, til dæmis á Mývatn.
Farið fram og til baka kostar 74 þúsund krónur. Verði miðar lausir skömmu fyrir brottför verða í boði sérstök ungmennafargjöld.
Hægt verður að breyta nafni á bókuðum farmiða, sem er fremur sjaldgæft og kostar það 10% af flugverði. Börn tveggja ára og yngri fljúga frítt, miðinn fyrir 2-12 ára kostar 50% af fullu verði og 90% af 13-19 ára. Farangur er innifalinn í gjaldi.
Tanni Travel mun annast sölu á fluginu til Austfirðinga og þar á að vera hægt að byrja að bóka ferðir. Gert er ráð fyrir að byrjað verði að selja í ferðirnar í Bretlandi innan mánaðar.