ISAVIA: Egilsstaðaflugvöllur er tilbúinn
Björn Óli Hauksson, forstjóri ISAVIA, segir að Egilsstaðaflugvöllur og starfsmenn hans geti leikandi tekið á móti áætluðu flugi milli Egilsstaða og Lundúna næsta sumar. Flogið verður tvisvar í viku.„Egilsstaðaflugvöllur er tilbúinn og alltaf verið tilbúinn," sagði Björn Óli í samtali við Austurfrétt.
„Völlurinn er hannaður og byggður upp til að taka á móti svona vélum, meira að segja miklu stærri og fleiri í einu. Við kippum okkur ekkert upp við að fá eina vél tvisvar í viku.
Húsið er tilbúið, flugvöllurinn er fyrir utan, starfsfólkið er þjálfað og búið að endurnýja snjóruðningstæki og slökkviflota."
Frekar er að flugið valdi álagi á öðrum stöðum, til dæmis lögreglu og tollgæslu en þar sem farþegarnir koma frá Bretlandi sem er utan Schengen-samstarfsins þarf að halda uppi vegabréfaeftirliti.
Aukist umferðin áfram gæti þurft að kanna aðstæður í kringum flugvöllinn, stækka bílastæði og aðstöður fyrir hópferðabíla.
„Það að taka á móti vélinni sjálfri, láta hana lenda, koma farþegum og farangri inn er ekkert mál. Gátin er opin."