Landsvirkjun tapar í Hæstarétti: Meta má vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar til fasteignamats

karahnjukarHæstiréttur snéri í dag við úrskurði héraðsdóms í máli Landsvirkjunar gegn Þjóðskrá og Fljótsdalshéraði um að Þjóðskrá ætti ekki að skrá og meta vatnsréttindi við Jökulsá á Dal inn í fasteignamat. Dómurinn gæti haft umtalsvert fordæmisgildi og falið í sér auknar tekjur fyrir sveitarfélögin Fljótsdalshrepp og Fljótsdalshérað.

Landsvirkjun keypti á sínum tíma vatnsréttindi í Jökulsá á Dal, og fleiri ám, sem mynda Kárahnjúkavirkjun. Fljótsdalshérað taldi að meta skyldi réttindin til fasteignamats og eigandi þeirra, í þessu tilfelli Landsvirkjun, skyldi greiða af þeim gjöld en á það féllst Landsvirkjun ekki.

Sveitarfélagið skaut málinu til Þjóðskrár sem úrskurðaði því í vil árið 2009. Landsvirkjun skaut málinu áfram til innanríkisráðuneytisins, sem staðfesti fyrri niðurstöðu og höfðaði því dómsmál með kröfu um ógildinu úrskurðar ráðuneytisins.

Fyrir ári dæmdi héraðsdómur Reykjavíkur Landsvirkjun í hag en allir fimm dómarar Hæstaréttar, sem dæmdu í málinu í dag, voru sammála um að snúa þeim dómi við.

Landsvirkjun taldi Þjóðskrá skorta heimildir til að skrá réttindin, þau teldust ekki sjálfstæð eign og ekki væri stjórnsýsluleg hefð fyrir því hérlendis að meta þau með þessum hætti.

Landsvirkjun skal að auki greiða Þjóðskrá og Fljótsdalshéraði 2,5 milljónir hvoru í málskostnað.

Milljónir til sveitarfélaganna á ári

Enn er óútséð hver verða fyllileg áhrif dómsins en þau sveitarfélög sem Kárahnjúkavirkjun tilheyrir, það er Fljótsdalshreppur og Fljótsdalshérað, gætu átt von á umtalsverðum aukatekjum á næstu árum. Miðað við bráðabrigðaútreikninga þýðir dómurinn 16 milljónir aukalega á ári fyrir Fljótsdalshérað.

Það er þó enn óvíst þar sem eftir á að meta vatnsréttindin endanlega, skattleggja þau og fleira.

Í málinu var tekist á um vatnsréttindi á vatnasviði Jökulsár á Dal. Fleiri ár, svo sem Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá, tilheyra virkjuninni. Á næstunni verður væntanlega óskað eftir mati Þjóðskrár á þeim vatnsréttindum sem seld voru Landsvirkjun við Kárahnjúkavirkjun.

Ekki er heldur ólíklegt að fleiri virkjunarsveitarfélög skoði sína stöðu en dómurinn gæti verið fordæmisgefandi fyrir svæði á landinu, til dæmis við Blöndu.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.