Arngrímur Viðar: Handsöluðum hugmyndina um beina flugið á staðnum
Það var Arngrímur Viðar Ásgeirsson, ferðaþjónustuaðili á Borgarfirði, sem fyrstur stakk þeirri hugmynd að eiganda bresku ferðaskrifstofunnar Discover the World að koma upp beinu flugi á milli Egilsstaða og Englands. Hann á von að flugið lengi ferðamannatímann á Austurlandi.„Ég hef undanfarin ár fylgst með því sem menn hafa gert fyrir norðan og mín var kenning var sú að við þyrftum að horfa fram hjá flugfélögunum með því að fá ferðaskrifstofu til að koma til okkar og kaupa af okkur svæðið.
Það var því hrein og bein hugdetta þegar ég rakst á Clive (Stacey, eiganda DTW) og Skúla Mogenseon (eiganda WOW Air) við sitt hvora súluna á VestNorden ferðakaupstefnunni í Hörpu fyrir ári og sagði: „Strákar við þurfum að ræða þetta aðeins. Við ætlum að byrja að fljúga beint í Egilsstaði í júní 2016. Eigum við ekki að fara að vinna í því?" Það var handsalað á staðnum.
Annar heltist úr lestinni en sýndi áhuga á svæðinu og hefur hann. Hans fyrirtæki stílar inn á Ameríkuflug sem fer í gegnum Keflavík og því hentar ekki að vera með starfsemi annars staðar í dag, en hver veit?"
Bretarnir koma aftur
Þannig fór boltinn að rúlla. Viðar segir að ýmsir kostir hafi verið kannaðir undanfarið ár en ekki endilega gengið upp. Hann telur aðkomu Discover the World, sem er einn stærsti söluaðili ferða á norðlægar slóðir í Bretlandi, skipta lykilmáli.
„Þeir eru með stóran lista af viðskiptavinum sem vilja nýjar ferðir og margir koma aftur til sama landsins. Það má ætla að 20-30% þeirra sem koma austur séu að koma til Íslands í annað sinn en vilja nýja upplifun og nýjan áfangastað."
Arngrímur Viðar hefur í ein 15 ár starfað í austfirskri ferðaþjónustu. Á þeim tíma hafa verið gerðar tilraunir með beint flug bæði til Þýskalands og Danmerkur frá Egilsstöðum en þær voru skammvinnar. Viðar er bjartsýnni á framtíð Lundúnaflugsins sem sé betur undirbúið.
„Það voru kannski ekki fullunnin verkefni. Nú er farið í loftið að vel ígrunduðu máli og 12-13 mánaða vinnu."
Skiptir miklu máli fyrir minni aðila
Hann telur að tilkoma bresku ferðamannanna muni efla ferðaþjónustu á Australandi verulega, einkum þá sem fjær eru Hringveginum.
„Þetta hefur kannski ekki þýðingu fyrir hótel við þjóðveginn sem er fullbókað yfir sumarið en fólkið sem lendir hér gerir það ekki til að keyra hringinn heldur fara í sérstaka dagskrá á Austurlandi og næstu svæðum í tvær vikur.
Í mínu tilfelli gæti aukningin orðið 50% í júní og september og þar með ferðamannatímabilið á Borgarfirði lengst um þrjár vikur í báða enda.
Það er líka margsannað að ferðamenn eyða mestu fyrsta og síðasta daginn og þeir dagar verða hér. Því má reikna með mikilli aukningu í sölu gjafavöru og minjagripa."
Viðar vonast eftir að Lundúnaflugið festi sig vel í sessi þannig að hægt verði að halda áfram. „Það er stór þýskumælandi markaður og svo mætti halda áfram. Það eru tækifæri fyrir þessa flugvelli á Egilsstöðum og Akureyri í að fá fleiri til að lenda þar."