Norðfjarðargöng: Gengur vel að steypa brúargólfið á Eskifjarðará

nordfjardargong 20151009 1Byrjað var að steypa gólfið á nýja brú yfir Eskifjarðará klukkan sjö í morgun og unnið verður við það fram á kvöld. Þetta er stærsta einstaka steypan í gerð nýrra Norðfjarðarganga.

„Þetta gengur allt vel. Aðstæður eru ákjósanlegar, þurrt og logn og ekki of heitt," segir Guðmundur Þór Björnsson hjá verkfræðistofunni Hniti sem hefur eftirlit með verkinu.

VHE er aðalverktaki brúarsmíðinnar en að verkinu í dag koma einnig austfirskir múrarar og starfsmenn BM Vallár sem útvega steypuna. Alls eru um 30 starfsmenn að störfum við steypuna í dag.

Þegar Austurfrétt heyrði í Guðmundi um klukkan hálf tvö í dag var búið að dæla um helmingi steypunnar í gólfið og ganga frá um fjórðungi yfirborðsins.

Brúin er bitabrú í þremur höfum alls 58 metra löng og tíu metrar að breidd. Í brúardekkið í dag fara um 400 rúmmetrar af steypu en alls er áætlað að 700 rúmmetra af steypu þurfi í brúna.

Hún verður væntanlega klár um næstu mánaðarmót en í næstu viku verða steyptar í hana sigplötur. Þá verður farið í að fylla að henni og ganga frá handriði og vegriði.

Myndir: Ófeigur Ö. Ófeigsson/Hnit verkfræðistofa

nordfjardargong 20151009 2nordfjardargong 20151009 3nordfjardargong 20151009 4

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar