Mesta starfsánægjan í Verkmenntaskólanum

frambodsfundur va 0010 webVerkmenntaskóli Austurlands í Neskaupstað fékk hæstu einkunn austfirskra ríkisstofnana í úttekt SFR á stofnun ársins. Menntaskólinn á Egilsstöðum er meðal hástökkvara ársins á landsvísu. Úttektin byggist einkum á ánægju starfsmanna með stofnun sína.

Verkmenntaskólinn varð í tíunda sæti á landsvísu í flokki stofnana með 20-49 starfsmenn með einkunnina 4,264. Landsmeðaltalið var 3,945.

Menntaskólinn á Egilsstöðum er meðal þeirra stofnana sem hækka sig mest á milli ára, fær 3,909 í einkunn í ár en var með 3,667 í fyrra og er í 27. sæti flokksins.

Lögreglan á Austurlandi er í 35. sæti af 49 með einkunnina 3,754. Í flokki stofnana með færri en 20 starfsmenn er Sýslumaðurinn á Austurlandi í 13. sæti af 18. Með einkunnina 3,944. Landsmeðaltalið er 4,104 en sýslumenn og lögregluembætti virðast almennt vera undir því.

Skógrækt ríkisins, sem er með höfuðstöðvar sínar á Egilsstöðum, er í tíunda sæti stofnana með fleiri en 50 starfsmenn og einkunnina 4,1 sem er 0,3 stigum fyrir ofan meðaltal í flokknum. Þær stofnanir eru 79 talsins.

SFR stéttarfélag í almannaþjónustu hefur staðið fyrir valinu á stofnun ársins undanfarin níu ár. Spurningar könnunarinnar skiptast niður í átta þætti: trúverðugleiki stjórnenda, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar og ánægja og stolt. Heildareinkunnin er síðan reiknuð út frá þessum þáttum.

Heildareinkunnin stendur nánast í stað á milli ára. Sem fyrr er lægsta einkunnin hjá stofnunum á sviði löggæslu, dómstóla og fangelsa en hæst meðal þeirra sem eru í verslun og þjónustu. Einkunnin var einnig hærri meðal minni stofnana en þeirra stærri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar