40% fengust upp í kröfur á Malarvinnsluna
Um 40% fengust upp í kröfur í bú Malarvinnslunnar en skiptum á því lauk fyrir skemmstu. Heildarkröfur í búið voru tæpir tveir milljarðar króna.
Malarvinnslan var úrskurðuð gjaldþrota 11. nóvember árið 2008. Alls var lýst kröfum upp á tæpan 1,9 milljarð króna. Veðkröfur voru 1,2 milljarðar en 59% fengust upp í þær. Forgangskröfur voru tæpar 97 milljónir og fengust 47% upp í þær. Ekkert fékkst upp í aðrar kröfur.
Kaupfélag Héraðsbúa hafði keypt Malarvinnsluna um ári áður en hún varð gjaldþrota. Tilraunir til að rétta við reksturinn báru ekki árangur. Gjaldþrotið reyndist KHB þungbært, ásamt öðru og fór félagið í nauðasamninga í ársbyrjun 2009.