Jákvæðni í garð gullleitar í Vopnafirði
Fyrirtækið Iceland Resources hefur fengið leyfi til að leita að gulli og kopar í Vopnafjarðarhreppi. Fleiri svæði á Austurlandi gætu innihaldið góðmálma.Fyrirtækið hefur bent á átta svæði á Íslandi, þar af tvö á Austurlandi sem það hefur áhuga á að skoða með þann möguleika í huga að vinna gull og kopar úr jörðu.
Annars vegar er um að ræða um 700 ferkílómetra svæði sem teygir sig yfir nær allan Vopnafjörð en hins vegar 400 ferkílómetra svæði í kringum Þingmúla í Skriðdal. Vopnafjörðurinn er talinn mun líklegri til árangurs.
Í gögnum Iceland Resources er vitnað til skýrslu frá 1993 um að gulleifar hafi fundist á svæðinu. Hellisheiði er sérstaklega tilgreind í svæðinu og að hægt hafi verið að rekja sig eftir Haugsá að miðju eldstöðvakerfisins.
Þar segir að gullið teygi sig víða um svæðið þótt ekki hafi þótt svara kostnaði að vinna það.
Í umsókn fyrirtækisins er svæðunum átta raðað eftir styrkleika. Þormóðsdalur er efstur á lista en Vopnafjörður annar og Þingmúli fimmti.
Rannsóknaleyfið er til fimm ára með möguleika á framlengingu í önnur fimm ár og svo tvö ár í senn. Gert er ráð fyrir að fyrstu tvö árin séu tekin sýni og svæðin kortlögð en síðan ráðist í kjarnaborun.
Orkustofnun gefur leyfið út að fenginni umsögn Vopnafjarðarhrepps. Í bókun sveitarstjórnar er erindinu fagnað og engar athugasemdir gerðar við útgáfu leyfis enda talið jákvætt fyrir sveitarfélagið ef verðmætir málmar finnast á svæðinu.