Þórunn Egilsdóttir: Til hvers að byggja upp vegi þangað sem enginn býr?
Þórunn Egilsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins frá Vopnafirði, segir að staldra verði við samgöngumálum og hugsa hvert stefni og fyrir hverja uppbygging í vegakerfinu sé ætluð.„Eftir þessa yfirreið get ég ekki annað en velt því fyrir mér, líkt og margir sveitarstjórnarmenn gera, hvort eðlilegt sé að leggja áherslu á að byggja fyrst upp vegi til staða sem ekki er búið á. Þetta þurfum við að ræða. Erum við ekki að byggja upp ferðamannaland sem við viljum búa í?" spurði Þórunn á þingi eftir kjördæmaviku í byrjun mánaðarins.
Hefð er fyrir því að þingmenn í Norðausturkjördæmi ferðist allir saman, hitti fulltrúa allra sveitarstjórna í kjördæminu og forstöðumenn ýmissa stofnana. Þeir óku því um 1800 km í vikunni.
Þórunn velti hins vegar upp þeirri spurningu hvort rétt væri að láta þingmenn skiptast á kjördæmum til að dýpka skilning þeirra.
„Bara það að aka vegina í kjördæminu dýpkar verulega skilning á ástandi þeirra og mikilvægi þess að bæta verulega í framlög til viðhalds vega hnykkist vel inn í meðvitundina þegar þvælst er um óboðlega vegi sem eru því miður sá veruleiki sem margir Íslendingar búa við eftir áralangt aðhald."
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir frá vinstri grænum var með í för. Hún sagði að mikið hefði verið rætt um samgöngumál í ferðinni og til dæmis verið bent á að Hringvegurinn væri ekki malbikaður alls staðar í kjördæminu.