Arnaldur Máni ráðinn til RÚV
Arnaldur Máni Finnsson hefur verið ráðinn í starf frétta- og dagskrárgerðarmanns hjá Ríkisútvarpinu á Austurlandi. Hann kemur til starfa um miðjan nóvember við hlið Rúnars Snæs Reynissonar sem unnið hefur fyrir RÚV í fjórðungnum undanfarin ár.Arnaldur Máni er guðfræðingur frá Háskóla Íslands. Undanfarin ár hefur hann verið verkefnastjóri í ýmsum menningartengdum verkefnum.
Hann hefur meðal annars verið hluti af verkefnastjórateymi hönnunarverkefnisins Austurland: Designs from Nowhere sem hlaut Hönnunarverðlaun Íslands í fyrra.
Einnig hefur hann starfað sem blaðamaður á Vestfjörðum og skrifað greinar og gagnrýni í menningarvefritið Starafugl.
RÚV auglýsti í vor aftur síðsumars 50% stöðu á Austurlandi. Í hvorugt skiptið tókst að ráða í stöðuna og viðurkenndi svæðisstjóri RÚV að í einhverjum tilfellum hefði lágt starfshlutfall fælt áhugasama frá.
Á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í byrjun mánaðarins var samþykkt ályktun þar sem skorað var á RÚV að ráða starfsmann í fullt starf, til viðbótar við þann sem fyrir var, til að tryggja þáttagerð af svæðinu og vandaðan fréttaflutning.
Fyrr í haust var gengið frá ráðningu þriggja nýrra frétta- og dagskrárgerðarmanna á landsbyggðinni og eru nú starfandi frétta- og dagskrárgerðarmenn í öllum landshlutum. Þetta er í takt við yfirlýsta stefnu RÚV um að auka starfsemi sína á landsbyggðinni.