Valdimar O. nýr rekstarstjóri Brammer

valdimar o hermannsson ssa13Valdimar O. Hermannsson, rekstrarstjóri hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað, hefur verið ráðinn rekstarstjóri Brammer á Austurlandi og hefur störf þar eigi síðar en 1. janúar næstkomandi.

Valdimar segist hafa ákveðið að endurskoða stöðu sína eftir rúman áratug hjá HSA sem rekstrarstjóri Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað, auk annarra tilfallandi sérverkefna.

Hann segir vissulega ákveðna eftirsjá í fjölbreyttu ábyrgðarstarfi hjá heilbrigðisstofnun, þar sem þrátt fyrir þrengingar í fjárveitingum hafi verið mikil uppbygging og þróun starfseminnar, sem íbúar Austurlands geti verið stoltir af að hafa aðgang að í fjórðungnum.

Eins sé honum ofarlega í huga sá stuðningur sem fyrirtæki, hollvinasamtök, starfsmenn og einstaklingar hafa sýnt í verki með gjöfum til búnaðar og tækjakaupa. Hann sé ómetanlegur við rekstur sem þennan, þar sem fjárveitingar geri takmarkað ráð fyrir slíku.

Um leið sé spennandi og áhugavert að takast á við nýja hluti og verkefni á öðru sviði hjá Brammer. Valdimar hefur áður starfað við alþjóðleg innkaup, vörustjórnun og rekstur af ýmsu tagi, hjá og með stórfyrirtækjum á Íslandi sem og erlendis.

Valdimar hefur að auki gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á sviði austfirskra sveitarstjórnarmála, er bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Fjarðabyggð og fyrrverandi formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar