Brunamál: Viljum vinna að úrlausnum með heimamönnum
Fulltrúar Mannvirkjastofnunar koma austur innan til tíðar til að ræða málefni Brunavarna á Austurlandi. Margvíslegar athugasemdir komu fram við aðbúnað slökkviliðsins í úttekt stofnunarinnar. Forstjórinn segir engin stórtæk úrlausnarefni bíða en þó þurfi formlega að klára málin.„Þetta snýr að atriðum eins og læknisskoðunum og þrekprófum sem við teljum vanta herslumuninn til að klára," segir Björn.
Austurfrétt hefur síðustu daga sagt frá úttekt stofnunarinnar sem gerði margvíslegar athugasemdir við starf Brunavarna á Austurlandi.
Meðal annars var fundið að því að brunavarnaáætlun væri ekki til staðar þrátt fyrir að unnið hafi verið að henni í átta ár.
„Brunavarnaáætlanir hljóta yfirleitt samþykki eftir einhverja vinnu en það vill svo til að sú áætlun sem send var inn hlaut ekki samþykki. Það þarf smá samvinnu til að klára hana," segir Björn.
Kröfur eru gerðar í lögum um brunavarnaráætlanir sveitarfélaga. Þær þarf síðan að endurnýja á fimm ára fresti. Í samtali við Austurfrétt sagði Björn að flest sveitarfélög landsins hafi „einhvern tíman" skilað inn áætlunum en þó nokkur eigi það eftir.
Þá var einnig gerð athugasemd við menntun slökkviliðsmannanna. Í athugasemd slökkviliðsstjóra var vísað til baka á að Mannvirkjastofnun hefði ekki komið austur með verklegan hluta þjálfunarinnar þrátt fyrir beiðni.
„Slökkviliðsstjórinn sendi erindi 14. apríl síðastliðinn þar sem óskað var eftir verklegum prófum fyrir 34 slökkviliðsmenn. Við svöruðum því daginn eftir og lýstum yfir vilja til að halda verklegt próf en bentum á að það vantaði upplýsingar um búnað og heilbrigði.
Við fengum ekki til baka upplýsingar um heilbrigðið og þar stoppaði málið.
Í reglugerð um reykköfun eru ákveðin skilyrði um heilbrigði og nám, meðal annars að reykkafarar skuli slysatryggðir af vinnuveitanda og fari árlega í læknisskoðun.
Við getum ekki þjálfað reykköfun nema læknisskoðunin liggi fyrir. Annars erum við ábyrgir fyrir mögulegu heilsutjóni við æfinguna, sem haldin er við mjög krefjandi aðstæður.
Við viljum endilega aðstoða Brunavarnir á Austurlandi við að koma þessum málum í gott horf. Við bíðum bara eftir vottorðunum."
Stjórn Brunavarna á Austurlandi, sem skipuð er fulltrúum sveitarfélaganna sem að þeim standa, hefur óskað eftir fundi með fulltrúum Mannvirkjastofnunar um skýrsluna.
„Við ætlum austur innan tíðar til að ræða þessi mál. Við viljum vinna með heimamönnum í að leysa þau."