Gestir óánægðastir með þjónustuna á Egilsstöðum
Gestir sem heimsækja Austurland heim nefna Egilsstaði sem það neikvæðasta við fjórðunginn. Einkum er horft til þjónustunnar á staðnum. Bæjarfulltrúar á Fljótsdalshéraði telja mikilvægt að þjónustuveitendur axli sína ábyrgð.Þetta er meðal þess sem fram kom í könnun sem Austurbrú gerði í sumar í tengslum við hönnun áfangastaðarins Austurlands en sagt var frá niðurstöðum hennar í Austurglugganum í síðustu viku.
Veðrið og vegirnir voru neikvæðustu þættirnir. Þar á eftir kom þjónustan en sá liður átti aðeins við um Egilsstaði.
Svarendur hafa bendu þar spjótum sínum að verslunum og veitingastöðum í bænum. Opnunartímar hafi þótt of stuttir, til dæmis sé nánast ekkert opið fyrir hádegi á sunnudögum sem leggist illa í þá sem hafi kannski komið seint á svæðið kvöldið áður.
Eins var kvartað yfir troðningi, til dæmis á ferjudögum. Bið eftir afgreiðslu sé þá löng sem valdi því að gestir fari frá Egilsstöðum með neikvæða upplifun.
Brugðið yfir niðurstöðunum
„Mér brá þegar ég sá það dregið upp að það versta við áfangastaðinn Austurland væru Egilsstaðir," sagði Anna Alexandersdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, þegar könnunin var rædd á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku.
Hún viðurkenndi að svör um lélega þjónustu og viðmót hefðu stungið hana mest. Hún hvatti þó til þess að skrattinn yrði ekki málaður á vegginn heldur myndu menn fara yfir niðurstöðurnar og reyna að nýta þær til úrbóta.
Stefán Bogi Sveinsson, oddviti framsóknarmanna, sagði mikilvægt að þjónustuaðilar á Egilsstöðum horfðu í eigin barm eftir niðurstöðu könnunarinnar.
„Hvers lags metnaðarleysi er þetta? Hér hefur verið allt fullt af ferðamönnum síðustu tvö sumur, íslenskum í fyrra og erlendum í ár. Hvað ætla fyrirtækin að gera ef þessir tveir hópar koma báðir næsta sumar?
Mér finnst hart að eini staðurinn sem dreginn er út fyrir í könnuninni sé Egilsstaðir því hann kemst á listann yfir það versta en því verður ekki neitað að þetta er upplifun gestanna."
Þjónustufyrirtækin verða að axla ábyrgð
Stefán Bogi beindi sérstaklega orðum sínum til samtaka þjónustuaðila á Héraði. „Þarna kemur að Þjónustusamfélaginu og eins ánægður og ég er með stofnun þeirra samtaka og að við vinnum með þeim er mikilvægt að þau axli ábyrgð inn á við.
Mér fannst þau fljót eftir stofnun að móta kröfugerð á sveitarfélagið sem því miður var ekki eftir hagsmunum allra innan samtakanna. Stendur ekki upp á þau nú að laga þætti í sinni starfsemi?"
Stefán Bogi vísaði einnig til tækifæra sem gætu falist í væntanlegu beinu flugi milli Egilsstaða og London næsta sumar.
„Gestunum fjölgar væntanlega og þá vantar okkur fleiri þjónustuaðila. Það ætti að vera gósentíð til að hefja rekstur miðsvæðis á Egilsstöðum en það verður að gera af metnaði en ekki þannig að Egilsstaðir séu eitt af því versta sem menn upplifa."
Gestir virtust almennt ánægðir með heimsóknina austur og nefndu náttúruna, víðáttuna, kyrrðina og fjölbreytni svæðisins sem styrkleika. Engir ákveðnir staðir sköruðu þar fram heldur svæðið í heild.
Um 60% gestanna voru Íslendingar og höfðu komið áður austur. Af erlendu gestunum voru Evrópubúar um helmingur og 40% frá Norður-Ameríku.
Heldur fáir gestir svöruðu til að svör þeirra geti talist fyllilega marktæk. Þau gefa hins vegar góða vísbendingu fyrir áframhaldandi þróun áfangastaðarins.