Fljótsdalshérað við botninn á listanum yfir draumasveitarfélögin

egilsstadir 04062013 0028 webFljótsdalshérað er talið eitt verst stadda sveitarfélag landsins í nýrri úttekt tímaritsins Vísbendingar á draumasveitarfélaginu. Úttektin byggist einkum á tölum úr ársreikningum.

Fjarðabyggð er í 15. sæti listans með einkunnina 6,3. Það er á svipuðum slóðum og í fyrra en fyrir tveimur árum var Fjarðabyggð í 8. sæti þrátt fyrir að vera með einkunnina 5,7.

Fljótsdalshérað er hins vegar í 34. sæti og fer upp um eitt sæti frá í fyrra með einkunnina 3,4 en var með 2,9 í fyrra. Sveitarfélagið er við botninn þar sem úttektin nær til 36. stærstu sveitarfélaga landsins.

Seltjarnarnes er efst á listanum annað árið í röð með einkunnina 9,0 en Hafnarfjörður í því neðsta með 3,0.

Vísbending birtir einnig lista yfir skuldir á hvern íbúa en þær eru næst hæstar á Fljótsdalshéraði, 2,36 milljónir. Tekjur á mann eru hins vegar 980 þúsund.

Fjarðabyggð er í sjötta sæti þess lista með skuldir upp á 1,73 milljónir á mann en tekjur á móti upp á 1,17 milljónir.

Mestar eru skuldirnar í Reykjanesbæ, 2,5 milljónir á mann en minnstar í Grindavík þar sem hver íbúi á að meðaltali 14.000 krónur.

Vísbending er vikurit um viðskipti og efnahagsmál. Úttektin byggir á skattheimtu, hóflegri breytingu á íbúafjölda, afkomu sem hlutfalli af tekjum, hlutfalli skulda af tekjum og veltufjárhlutfalli.

Í úttekt Vísbendingar er varað við að dekkra útlit sé í fjármálum sveitarfélaganna, einkum þar sem nýir kjarasamninga við kennara hafi farið fram yfir greiðslugetu. Vissulega aukist tekjur sveitarfélaganna með hærri launum íbúa en í þessu tilfelli sé launahækkun starfsmanna sveitarfélaganna meira en almennt gerist.

Eins er bent á að aðhald sé ekki í tísku meðal borgaranna á sama tíma og ríkið dæli út peningum. Þá hafa einhver sveitarfélög lagt út í dýrar framkvæmdir í von um að fá stóriðju.

Skuldir sveitarfélaganna hafa almennt lækkað eftir hrun þótt sum hafi ekki tekið við sér fyrr en hafa verið áminnt af eftirlitsnefnd með fjárhag sveitarfélaga. Öðrum sveitarfélögum gengur verr og nú heyrist meira ákall um að tekjur sveitarfélaga verði að hækka. Tímaritið telur nauðsynlegt að sveitarfélög haldi áfram að stækka með sameiningum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.