Ekki óskastaða að vera geðsjúkur á Austurlandi

tara tjorvadottir 0013 webTara Ösp Tjörvadóttir, einn af forsprökkum herferðarinnar #égerekkitabú segir aðstæður geðsjúkra á Austurlandi erfiðar. Á svæði vanti meira af sérhæfðu starfsfólki í heilbrigðisþjónustuna.

„Þegar ég greindist með þunglyndi var ég látin flakka á milli, hitta hjúkrunarfræðing í Neskaupstað og lækni á Egilsstöðum. Oft fékk ég að heyra: „Ég get því miður ekki hjálpað þér, þú ert of veik fyrir mig."

Mér var ráðlagt að fara til sérfræðings fyrir sunnan en hann datt fljótt upp fyrir út af dýrum ferðalögum. Það var ekki fyrr en ég hafði verið veik í sex ár að ég fékk loks sálfræðing eystra sem ég gat talað við."

Þetta segir Tara Ösp, sem flutti í Egilsstaði um fermingu, í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Hún hratt herferðinni af stað fyrir mánuði til þess að vekja upp umræðu um fordóma í garð geðsjúkdóma. Sjálf hefur Tara um árabil glímt við alvarlegt þunglyndi.

Hún lýsir þunglyndinu þannig að einstaklinginn vanti allan drifkraft til að hafa sig af stað út í daginn. Þá sé ekki á það bætandi að þurfa að hrekjast á milli heilbrigðisstarfsfólks.

„Í þau skipti sem ég mannaði mig upp til að fara eitthvert var þekkingin þar ekki nógu góð. Þá fékk ég þessa höfnun sem setti mig svo langt aftur að ég gafst upp á öllu. Því var erfitt að manna mig upp til að fara aftur og hitta einhvern annan.

Mér fannst ég alltaf á byrjunarreit. Að opna mig að tilgangslausu fyrir nýjum og nýjum aðila sem ekki gat hjálpað mér. Það var sérstaklega erfitt því ég var með mikla höfnunarhræðslu þannig að það tók á að fara inn og hitta nýja manneskju og byrja að tala.

Þetta voru jafnvel ekki sérfræðingar í geðsjúkdómum heldur var sagt við mig: „Þessi kona er rosalega indæl, hún gæti hjálpað þér." Ég var hins vegar það alvarlega þunglynd að ég þurfti meira en indæla konu sem vildi vel en hafði ekki þekkinguna til að takast á við veikindi mín."

Mat hennar á stöðu geðsjúkra á Austurlandi eru einfalt: „Það er ekki óskastaða að vera geðsjúkur á Austurlandi."

Tara segir að einkum þurfi tvennt að laga í heilbrigðiskerfinu. Í fyrsta lagi að niðurgreiða sálfræðiþjónustu en meðal þess sem fram hafi komið hjá þeim sem opnuðu sig undir #égerekkitabú var að sumir leituðu sér ekki meðferðar vegna kostnaðar.

Hitt er að tryggja að á Austurlandu sé til staðar sálfræðingur. „Þú þarft ekki að bíða heima hjá þér í tvær vikur eftir lækni á Egilsstöðum ef þú ert með opið beinbrot. Ég þurfti hins vegar að fylgjast með því í Dagskránni hvenær von væri á næsta sálfræðingi."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar