Grunaður um kynferðisbrot gegn bræðrum
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms Austurlands um að hafna kröfu lögreglustjórans á Austurlandi um að karlmaður, sem grunaður eru um kynferðisbrot gegn bræðrum, verði gert að sæta geðrannsókn.Málin komu til kasta lögreglu og félagsmálayfirvalda sumarið 2014 eftir að drengirnir sögðu móður sinni frá því sem gerst hafði. Maðurinn var heimilisvinur þeirra.
Brotið gegn öðrum bróðurnum á að hafa átt sér stað árið 2008 en kærði lagðist þá við hlið hans í rúmi og læddi hönd sinni inn á kynfæri stráksins.
Tímasetning brotanna gegn hinum bróðurnum eru ekki tímasett á sama máta í greinargerðinni.
Þar segir að kærði og strákurinn hafi vakað saman yfir fé á sauðburði á heimilinu. Þeir hafi legið saman hlið við hlið á heyrúllum þegar maðurinn hafi tekið utan um strákinn með annarri hendinni en strokið honum innanklæða með hinni.
Í greinargerðinni er einnig greint frá öðru atviki síðar. Maðurinn og drengurinn stóðu saman fyrir fé uppi í fjalli er maðurinn reyndi að fara með hönd sína inn á kynfæri hans. Drengurinn var þá orðinn sterkari og gat snúið sig lausan.
Maðurinn, sem áður hefur hlotið dóm fyrir kynferðisbrot, hefur neitað sök og kveðst ekki muna eftir atburðunum. Hann viðurkennir hins vegar að hafa átt erfitt á þessu tímabili og meðal annars sætt einelti.
Óskin um geðmatið kemur frá ríkissaksóknara sem taldi þörf á frekari gögnum. Dómstólarnir telja hins vegar ekki skýra lagastoð fyrir kröfu lögreglustjóra um að sakborningurinn undirgangist geðmat eða geðrannsókn gegn vilja sínum. Því var kröfunni hafnað.