„Konur hætta frekar í sveitarstjórnum eftir eitt kjörtímabil“

sigrun blondal 2010Undirbúningsnefndinni þótti ástæða til að fjalla sérstaklega um konur í stjórnmálum og það er full ástæða til," segir Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og formaður SSA, en málþingið Konur í stjórnmálum, reynsla og lærdómur, verður haldið á Hótel Héraði á föstudag.

„Málþingið er hugsað í tilefni af afmæli 100 ára kosningaréttar kvenna. Þar fjalla fimm konur og einn karl um stjórnmálaþátttöku kvenna á Íslandi í sögulegu og alþjóðlegu ljósi og þær breytingar sem orðið hafa á þátttöku þeirra og viðhorfum.

Einnig verður fjallað um persónulega reynslu kvenna af því að starfa á vettvangi sveitarstjórnarmála og á Alþingi, hvaða hindranir hafi verið á vegi þeirra, hvað hafi hugsanlega breyst síðustu áratugi, hvort kynbreytan skipti enn máli í starfi þess sem leggur stjórnmál fyrir sig, hvernig gangi að samræma starfið öðrum störfum konunnar og hvaða áskorunum karlar og konur standi frammi fyrir þegar um þátttöku í stjórnmálastarfi er að ræða.

„Enn eru konur talsvert færri en karlar í sveitarstjórnum og enn færri ef litið er til þess hvort konur eða karlar leiða framboðslista. Það er líka umhugsunarvert að konur hætta frekar í sveitarstjórnum eftir eitt kjörtímabil og væri full ástæða til að ræða hvaða ástæður liggja að baki. Það skiptir máli að reyna að vekja áhuga beggja kynja á að taka þátt í umræðu um samfélagið og til þátttöku í stjórnmálum," segir Sigrún.

Málþingið haldið á vegum Fljótsdalshéraðs með stuðningi frá sjóði Framkvæmdanefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Hefst það klukkan 13:30 og lýkur klukkan 16:00. Allir eru velkomnir.


Dagskrá málþingsins er eftirfarandi:
Setning: Dagmar Ýr Stefánsdóttir, fulltrúi í undirbúningshópi málþingsins
  • Karlveldið lagt að velli (friðsamlega): Auður Styrkársdóttir, forstöðukona Kvennasögusafns Íslands og formaður Framkvæmdanefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna
  • Stjórnmálaþátttaka íslenskra kvenna í alþjóðlegum samanburði: Rósa Guðrún Erlingsdóttir, stjórnmálafræðingur og sérfræðingur í jafnréttismálum í velferðarráðuneytinu
  • Úr Reynslubankanum : Arnbjörg Sveinsdóttir, atvinnurekandi, forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar og fyrrverandi alþingiskona
  • Áskoranirnar 100 árum síðar – brjóstabylting og kynskiptur vinnumarkaður: Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður með reynslu úr sveitarstjórnarmálum, menntamálum og lífi og starfi á Austurlandi
  • „Ertu maðurinn hennar Kötu? Hvað er að frétta af tvíburunum?" Bjarni Bjarnason, rithöfundur
  • Togstreita: Sigrún Blöndal, húsmóðir, kennari, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og formaður SSA

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar