„Þau eru svo sannarlega forritarar framtíðarinnar"

grunnskolinn a reydarfirdi web„Við erum rosalega spennt fyrir þessu öllu saman," segir Ásta Ásgeirsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Reyðafjarðar, en skólanum var fyrir stuttu úthlutað styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar.

„Þetta er sannkallað gleðiefni fyrir okkur.. Í Aðalnámskrá grunnskóla segir að megin tilgangur kennslu í upplýsinga- og tæknimennt sé að efla upplýsinga- og miðlalæsi nemenda og hjálpa þeim að öðlast almenna, góða tæknifærni og tæknilæsi sem þverfaglegt námssvið.

Til að uppfylla þessi markmið sóttum við um styrk í sjóðinn Forritarar framtíðarinnar í vor, en hlutverk hans er að stuðla að því að forritun verði kennd sem hluti af skólanámsskrá grunn- og framhaldsskóla á Íslandi," segir Ásta.


Tvíþættur styrkur

Styrkurinn er tvíþættur og felur annars vegar í sér þjálfun kennara frá sérfræðingum SKEMA og hins vegar því að skólinn fær afhentar tíu tölvur. Alls hljóðar styrkurinn upp á 957.996 krónur. Sjóðurinn vill stuðla að því að mennta og þjálfa kennara til þess að takast á við nýjungar í tækni.

„Við erum ekki með menntaðan upplýsingatæknikennara hjá okkur í vetur, heldur sjáum fyrir okkur að kennslan fari fram hjá umsjónarkennurum inn í hverjum bekk. Því munu allir kennararnir okkar fara á námskeiðið, auk stuðningsfulltrúa. Þeir hjá SKEMA munu hjálpa okkur við markmiðssetningu og að kortleggja kennsluna."


Magnaðir kennarar

Skólinn sótti einnig um styrk í Endurmenntunarsjóð grunnskóla í vor, til útikennslu í náttúrufræði og forritunarkennslu.

„Við fengum þann styrk líka og getum því lagt enn meiri kraft í forritunina, sem er algerlega frábært. Kennararnir okkar taka alltaf svo vel í að læra nýja hluti, það er alveg magnað. Tölvulæsi nemendanna er almennt mjög gott og eru þau komin fram úr okkur á flestum sviðum, þau eru svo sannarlega forritarar framtíðarinnar.

Við hlökkum bara mikið til að takast á við þetta verkefni og nýta okkur þá tækni sem forritun býður upp á með fjölbreyttum hætti í kennslu ólíkra námsgreina. Teljum við að verkefnið leiði til nýsköpunar og hagnýtrar þekkingar og veiti nemendum tækifæri til að þróa búnað og forritun við hin ýmsu verkefni sem unnin eru í daglegu skólastarfi. Það eru spennandi tímar framundan," segir Ásta að lokum.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.