Safna fyrir sjúkrabíl á sjó

alcoa samfelagssjodur sprettur okt15 0004 geisliBjörgunarsveitin Geisli á Fáskrúðsfirði safnar nú fyrir nýjum yfirbyggðum björgunarbát. Forsvarsmenn sveitarinnar telja þörf á hraðskreiðum bát sem staðsettur sé fyrir miðjum Austfjörðum. Um er að ræða bát sem smíðaður er eftir íslenskri einkaleyfishönnun.

„Við höfum verið að hugsa þetta í töluverðan tíma því okkur hefur fundist vanta yfirbyggðan og hraðskreiðan bát á svæðið sem flutt getur björgunarlið, lækna, slökkviliðsmenn um borð í skip eða sjúklinga í land," segir Ólafur Atli Sigurðsson, formaður sveitarinnar.

Báturinn er framleiddur af fyrirtækinu Rafnar í Kópavogi. Hann er hugarfóstur Össurar Kristinsson, stofnanda stoðtækjafyrirtækisins Össurar og hefur verið rúman áratug.

Tveir bátar eru til, annar hjá Björgunarsveit Skáta í Kópavogi en hinn hjá Landhelgisgæslunni sem hefur prófað bátinn undanfarin fjögur ár.

Ný hönnun á skrokk

„Það er beitt nýrri hugmyndafræði við skrokklagið. Til þessa hafa allir hraðskreiðir bátar siglt ofan á sjónum en þessi er með sérstakan kjöl og alltaf ofan í sjónum. Hingað til hefur verið haldið að slíkur sjórýmisbátar gætu ekki siglt svona hratt en þessi kemst 40 sjómílur á klukkustund," útskýrir Óskar Þór Guðmundsson, flokksstjóri sjóflokks Geisla.

Hraðinn skiptir máli því þyrlur eru fjarri Austfjarðamiðum og þurfa umtalsverðan tíma til að komast á staðinn.

Það skiptir líka máli að báturinn fari vel með þá sem í honum eru enda hefur hann verið kallaður sjúkrabíll á sjó. „Hreyfingar hans eru mjúkar. Ef þú ert með sjúkrabíl þá má hann ekki vera svo hastur að allir sem í honum séu að berjast um," segir Óskar.

Það skiptir líka máli fyrir áhöfnina. „Ef menn eru í löngum verkefnum á sjó, svo sem leit, skiptir máli að áhöfnin sé ekki útjöskuð. Það hefur verið reyndin í slæmum veðrum og opnum bátum þannig menn eru jafnvel fleiri daga eða vikur að ná sér," bætir Ólafur Atli við.

Búnir að undirbúa kaupin lengi

Undirbúningur fyrir bátakaupin hafa staðið lengi en ákvörðun var tekin í vor. „Vendipunkturinn var bæði verð bátsins og að hann er íslensk framleiðsla. Það skiptir okkur líka máli að vera með í liði við lokahönnun á báti sem á að henta björgunarsveitunum," segir Ólafur Atli.

Söfnin fór af stað þá og fékk sveitin meðal annars hæsta styrkinn úr samfélagssjóði Fjarðaáls í síðustu viku. Haldið verður áfram á næstunni, meðal annars með sölu Neyðarkallsins um helgina.

Báturinn kostar um 65 milljónir en sveitin hefur lagt til vinnu við hönnun bátsins sem gengur að hluta upp í kaupverðið.

Áætlað er að tíu milljónir vanti í söfnun Geisla en gert er ráð fyrir að núverandi bátur sveitarinnar verði seldur. Stefnan er að geta skrifað undir kaupin fyrir áramót þannig báturinn verði afhentur þegar sveitin verður fimmtug næsta vor.

Björgunarsveitir um allt land selja Neyðarkallinn um helgina en þetta er í tíunda sinn sem það er gert. Á landsvísu er áherslan á bílaflokka björgunarsveitanna en mikið mæddi á þeim síðasta vetur við aðstoða ferðalanga í vandræðum á fjallvegum. Sveitir á slíkum svæðum eru gjarnan fámennar og því mikið álag á þeim sem sinna útköllunum.

Óskar Þór og Ólafur Atli ásamt Smára Kristinssyni frá Fjarðaáli við afhendingu styrksins í síðustu viku. Mynd: GG

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.