Hættuástandi aflýst í Helgustaðahreppi
Rýmingu í Helgustaðahreppi vegna skriðhættu og hættuástandi þar með var aflýst klukkan þrjú í dag. Svæðið verður vaktað áfram næstu daga.„Niðurstöður mælinga undanfarna tvo sólarhringa benda til að hraði skriðsins sé ekki að aukast," segir Auður Kjartansdóttir, sérfræðingur á ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands.
Svæði í Helgustaðahreppi var rýmt á föstudagskvöld og veginum fyrir utan Mjóeyri lokað í kjölfar mikilla rigninga. Vísbendingar eru um að allt að þrjár skriður hafi farið af stað.
Í gær og dag hefur verið komið fyrir mælingapunktum þannig að áfram verði hægt að fylgjast með aðstæðum.
„Það er enn óvissustig og við fylgjumst náið með aðstæðum. Þessir punktar verða mældir upp með reglulega millibili."
Svæðið sem um ræðir er fyrir ofan Högnastaði, Engjabakka og Svínaskála. Eins hefur sigið undan veginum upp Oddsskarð þar fyrir ofan og er önnur akreinin lokuð á um 100 metra kafla.
Lítil úrkoma er í veðurspám en kólnandi sem á að draga úr hættunni.
Myndband: Hlynur Sveinsson