Fagna því að óvissunni sé eytt: Krafa um vangoldin laun fjögur ár aftur í tímann
Bæjarráð Fjarðabyggðar fagnar því að fengin sé niðurstaða í mál sem AFL Starfsgreinafélag höfðaði gegn sveitarfélaginu fyrir hönd tveggja starfsmanna þess þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi tapað málinu. AFL hyggst sækja laun starfsmannanna aftur í tímann.Eins og Austurfrétt greindi frá á föstudag kom Félagsdómur nýverið að þeirri niðurstöðu að tveir stuðningsfulltrúar í grunnskólum Fjarðabyggðar með meistarapróf í iðngrein skyldu fá sama persónuálag og þeir sem lokið hafa stúdentsprófi.
Sveitarfélagið hélt því fram að þar sem nám þeirra væri sérhæft en ekki almennt ætti ákvæði kjarasamnings ekki við en því var Félagsdómur ósammála.
Í bókun bæjarráðs er því fagnað að niðurstaða sé komið í málið og óvissu um túlkun samningsins eytt. Sérstaklega er minnst á að iðnnám sé mikilvægt í starfasamsetningu sveitarfélagsins og Verkmenntaskóli Austurlands ein af kjarnastofnunum þess.
AFL rak málið fyrir hönd starfsmannanna tveggja og í frétt á vef félagsins segir að afstaða Fjarðabyggðar hafi vakið nokkra undrun með tilliti til þess að sveitarfélagið hýsi einn af verknámsskólum landsins.
Félagið mun næst sækja launaauka starfsmannanna fjögur ár aftur í tímann.