Hjörtur ráðinn héraðsdýralæknir
Hjörtur Magnason hefur verið ráðinn héraðsdýralæknir Matvælastofnunar í Austurumdæmi. Stofnunin leitar að dýraeftirlitsmanni á svæðið.Hjörtur er ekki ókunnugur starfsvettvanginum en hann hefur áratuga reynslu af opinberu eftirliti og dýralæknastörfum bæði á Íslandi og Svíþjóð.
Hjörtur hóf störf 1. nóvember síðastliðinn en hann hefur áður gegnt starfi héraðsdýralæknis á Austurlandi og einnig sinnt þar störfum sem sjálfstætt starfandi dýralæknir.
Illa hefur gengið að manna stöðuna en hún var auglýst þrisvar sinnum á árinu án þess að tækist að ráða í hana. Loks tókust þó samningar við Hjört.
Stofnunin leitar einnig að dýraeftirlitsmanni en sú staða hefur verið laus frá síðustu mánaðarmótum. Viðkomandi hefur eftirlit með aðbúnaði og velferð dýra á svæðinu, svo sem móttöku og úrvinnslu tilkynninga um illa meðferð. Umsóknarfrestur er til sunnudags.