Beint úr björgunaraðgerðum í flugeldasölu: Heldur mest upp á Gunnlaug ormstungu

Björgunarsveitarmenn á Eskifirði hafa staðið í ströngu í vikunni bæði í útköllum vegna veðurofsans en einnig við sína helstu fjáröflun, flugeldasöluna. Formaðurinn segir gott að geta nú loks einbeitt sér að flugeldunum.


„Líðanin er nokkuð góð. Að sjálfsögðu er maður orðinn þreyttur en það þýðir ekki annað en halda áfram,“ segir Bergmann Þór Kristjánsson, formaður Brimrúnar á Eskifirði.

Flugeldasalan hófst á mánudag um leið og gekk í mikið vatnsveður með skriðuföllum og flóðum og í morgun olli fárviðri miklu tjóni í bænum.

Bergmann telur að 25 manns hafi verið að störfum þegar mest lét í morgun en félögum í Brimrúnu barst aðstoð frá félögum sínum í Ársól á Reyðarfirði og verktökum í bænum.

„Þetta hafa verið annasamir dagar. Það hefur bæði verið mikið að gera í flugeldasölunni og óvenjumikið um útköll. Ég held að við höfum farið í fleiri útköll síðustu þrjá daga heldur en undanfarna tvo mánuði.“

Hann var meðal þeirra sem stóðu vaktina í félagshúsnæðinu við söluna seinni partinn í dag. Opið er til 22 í kvöld og 10-15 á morgun.

„Það er voðalega gott að vera búinn í storminum þannig maður geti einbeitt sér bæði að sýningu og sölu flugeldanna. Í öðru húsi í bænum eru okkar menn að tengja flugeldasýninguna fyrir morgundaginn og gera hana flotta.

Hann kveðst ánægður með söluna á flugeldunum til þessa. „Hún hefur verið fín en við eigum von á kipp í kvöld á morgun. Þetta eru vanalega stærstu dagarnir.“

Bergmann nefnir svo Gunnlaug ormstungu þegar hann er spurður um sinn uppáhalds flugeld. „Hann er langskemmtilegastur með miklum látum og mikilli sýningu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.