Björgólfur, Hjörleifur og Steinunn meðal fálkaorðuhafa

Hjörleifur Guttormsson, þingmaður Austfjarða í áraraðir, var meðal þeirra ellefu sem forseti Íslands sæmdi heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu í dag. Fyrrum forstjóri Síldarvinnslunnar og fyrrum forstöðumaður Minjasafns Austurlands voru einnig í hópnum.


Hjörleifur er fæddur á Hallormsstað 31. október árið 1935, sonur Guttorms Pálssonar skógarvarðar og Guðrúnar Margrétar Pálsdóttur.

Hann tók próf í líffræði frá háskólanum í Leipig en starfaði síðan meðal annars við kennslu og náttúrurannsóknir í Neskaupstað. Hann sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið á Austurlandi árin 1978-1999 og gegndi alls um fjögurra ára skeið embætti iðnaðarráðherra.

Hjörleifur fær riddarakrossinn fyrir framlag til umhverfisverndar og náttúrufræðslu auk starfa í þágu hins opinbera en eftir hann liggur fjöldi rita um náttúruvernd og ferðamennsku.

Björgólfur Jóhannsson fær riddarakrossinn fyrir framlag til þróunar íslensks atvinnulífs. Hann er uppalinn á Grenivík og starfaði hjá Útgerðarfélagi Akureyringa og Samherja áður en hann tók við starfi forstjóra Síldarvinnslunnar árið 1999.

Því gegndi hann þar til ársins 2006 þegar hann fór til Icelandic Group og tveimur árum síðar Icelandair Group þar sem hann  er enn í dag.

Steinunn Kristjánsdóttir fær riddarakrossinn fyrir rannsóknir á sviði íslenskrar sögu og fornleifa. Hún er fædd á Breiðalæk í Vestur-Barðastrandarsýslu og útskrifaðist með doktorspróf í fornleifafræði frá Háskólanum í Gautaborg árið 2004.

Steinunn var forstöðumaður Minjasafns Austurlands 1995-1997 og 2000-2001. Í millitíðinni gegndi hún starfi verkefnastjóra Marka heiðni og kristni hjá Minjasafninu.

Þar stýrði hún fornleifarannsóknum á kirkju og grafreit í landi Þórarinsstaða í Seyðisfirði og á kirkjurúst í landi Litla-Bakka í Hróarstungu. Eins leiddi hún fornleifarannsókn á víkingaaldarkumli í Skriðdal árið 1995.

Stærsta verk Steinunnar telst þó sennilega uppgröftur og rannsóknir á rústum klaustursins á Skriðu í Fljótsdal sem hófst árið 2002 og má segja að hafi lokið með útgáfu bókarinnar Sagan af Klaustrinu á Skriðu árið 2012. Steinunn starfar í dag sem prófessor við Háskóla Íslands.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.