Gæti sært réttarvitund almennings ef kærði gengi laus
Hollendingur sem gripinn var með mikið magn fíkniefna eftir að hafa komið til Seyðisfjarðar með Norrænu í byrjun september hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fram í desember. Farið var fram á gæsluvarðhaldið á grundvelli almannahagsmuna.Hæstiréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms Suðurlands en maðurinn er í varðhaldi á Litla-Hrauni.
Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var gripinn ásamt sambýliskonu sinni við komuna til landsins með mikið magn fíkniefna í bíl þeirra. Lögreglustjórinn á Austurlandi fór í síðustu viku fram á að gæsluvarðhaldið yrði framlengt til 2. desember sem dómstólarnir féllust á.
Ætlað brot mannsins varðar allt að tólf ára fangelsi og telur lögregluembættið það þess eðlis að „almannahagsmunir krefjist þess að kærði sæti varðhaldi þar til dómur gengur í máli hans."
Í úrskurði héraðsdóms segir meðal annars að brotið sé „mjög alvarlegt og þess eðlis að það kynni að valda hneykslun í samfélaginu og sært réttarvitund almennings, ef kærði gengi laus áður en máli hans lýkur með dómi."
Dómurinn vísar í niðurstöðu sinni til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála þar sem heimilað er að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald „ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna."
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að rannsókn málsins sé á lokastigi og hún teygi sig til annarra landa.
Maðurinn hefur við yfirheyrslur játað að hafa vitað um efnin í bílnum en heldur því fram að konan hafi ekki vitað af þeim.