Engin áhætta fyrir ríkið í stuðningi við nýjar flugleiðir til landsins

thota egs 14042015 0007 webStarfshópur, sem forsætisráðherra skipaði í vor til að kanna möguleika á reglulegum millilandaflugi um vellina á Egilsstöðum og Akureyri, leggur til að stutt verði við uppbyggingu nýrra flugleiða til landsins með sérstökum sjóðum. Beinar skatttekjur af millilandaflugi eru áætlaðar 300-400 milljónir króna.

Þetta kemur fram í skýrslu sjóðsins sem opinberuð var í dag.

Þar er lagt til að stofnaðir verði tveir sjóðir, Markaðsþróunarsjóður og Áfangastaðasjóðir. Þeir eiga að vera hvetjandi fyrir erlenda sem innlenda aðila og vera viðbót við það sem aðrir þróunaraðilar leggja til.

Gert er ráð fyrir að heildarupphæð beggja sjóðanna sé um 300 milljónir króna á ári í þrjú ár. Lögð verði fram sama upphæð og flugrekstraraðili leggur til. Greitt verður þegar flug er hafið.

Stuðningurinn er annars vegar til að byggja upp nýja leið. Annars vegar er hann niðurgreiðsla á áhættu við að byggja upp nýja leið og hins vegar stuðningur við markaðssetningu áfangastaðar.

Markmið vinnu starfshópsins var meðal annars að nýta betur innviði ríkisins, efla hagræn áhrif, bæta rekstrarskilyrði ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi og bæta búsetuskilyrði og lífsgæði á svæðunum.

Hópurinn fékk meðal annars Rannsóknarmiðstöð ferðamála hjá Háskólanum á Akureyri til að vinna skýrslu um svæðisbundin og þjóðfélagsleg áhrif af beinu flug.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að landsframleiðslan geti aukist um 900 milljónir árlega með beinu flugi á annan hvorn staðinn og um 200 milljónir sé aðeins flogið yfir sumarmánuðina.

Mikilvægasta breytingin er talin bætt nýting innviða, svo sem hótela, sem skapað geti forsendur fyrir ferðaþjónustu sem heilsársatvinnugrein. Flugið skapi líka ýmis tækifæri í öðrum atvinnugreinum svæðanna.

Í skýrslu starfshópsins er gert ráð fyrir að beinar skatttekjur ríkisins af tveimur flugum á viku allt árið yrðu 300-400 milljónir árlega. Þeirra myndu ríkissjóður njóta áfram að loknu þriggja ára starfstímabili sjóðanna.

„Miðað við þetta má gera ráð fyrir að það sé engin áhætta fyrir ríkissjóð heldur fái ríkissjóður allt sitt framlag til baka en njóti síðan beins afraksturs í formi skatttekna að liðnum þremur árum," segir í skýrslunni.

Matthías Imsland var formaður hópsins en í honum sátu meðal annarra Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, en þau voru tilnefnd af stofnunni.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.