Tugmilljóna tjón á austfirskum vegum í óveðrunum
Tug milljóna tjón varð á vegum á Austurlandi í óveðrunum sem gengu yfir fjórðunginn á milli jóla og nýárs. Skemmdir urðu víða, mest af völdum vatns og ágangs sjávar. Ekki er enn búið að meta skemmdirnar til fulls.
Þetta kemur fram í frétt á vef Vegagerðarinnar. Þar kemur fram að strax hafi verið reynt að laga verstu staðina. Skemmdir séu hins vegar ekki að fullu komnar fram.
Það á einkum við fjallvegi sem teljast ófærir á þessum tíma, svo sem leiðina til Mjóafjarðarvegi.
Miðað við upptalningu Vegagerðarinnar virðast fáir vegir hafa sloppið. Vattarnesvegur út með sunnanverðum Reyðarfirði fór í sundur á þremur stöðum og var lokaður í tvo sólarhringa. Malarvegurinn út í Helgustaðahrepp fór einnig illa.
Við Andapollinn á Reyðarfirði grófst vegurinn nánast í sundur þegar útfallið skipti um ham. Við brúna yfir Eskifjarðará og á Hrútá í Reyðarfirði fór malarefni undan brúarundirstöðum og klæðningu vegarins.
Dalsá í Fáskrúðsfirði gekk upp að vegi og skemmdi vegfláana. Í fyrri storminum féll aurskriða úr Grænavelli yfir veginn upp úr Reyðarfirði.
Umtalsverðar skemmdir urðu á Seyðisfjarðarvegi beggja megin í Fjarðarheiði, Hringvegi í Skriðdal, Skriðdalsvegi, Jökuldalsvegi í Hrafnkelsdal, Borgarfjarðarvegi um Vatnsskarð eystra og Fljótsdalsvegi auk skemmda víða á heimreiðum á þessu svæði.
Þá urðu einnig umtalsverðar skemmdir á Norðfjarðarvegi um Fagradal, við Eskifjörð, um Oddsskarð og líkt og nefnt hefur verið á Norðfirði, á Mjóafjarðarvegi, Helgustaðarvegi og Vattarnesvegi, Suðurfjarðavegi innan við Fáskrúðsfjörð, á Hringvegi um Breiðdalsheiði, í Breiðdal og við Breiðdalsvík, Norðurdalsvegi í Breiðdal, Hringvegi í Berufirði, Álftafirði og við Hvalnes.
Auk þess urðu skemmdir á heimreiðum víða á umræddum svæðum. Þá urðu einnig skemmdir á Axarvegi í Berufirði og á Hringvegi við Hornafjörð.