Tugmilljóna tjón á austfirskum vegum í óveðrunum

Tug milljóna tjón varð á vegum á Austurlandi í óveðrunum sem gengu yfir fjórðunginn á milli jóla og nýárs. Skemmdir urðu víða, mest af völdum vatns og ágangs sjávar. Ekki er enn búið að meta skemmdirnar til fulls.


Þetta kemur fram í frétt á vef Vegagerðarinnar. Þar kemur fram að strax hafi verið reynt að laga verstu staðina. Skemmdir séu hins vegar ekki að fullu komnar fram.

Það á einkum við fjallvegi sem teljast ófærir á þessum tíma, svo sem leiðina til Mjóafjarðarvegi.

Miðað við upptalningu Vegagerðarinnar virðast fáir vegir hafa sloppið. Vattarnesvegur út með sunnanverðum Reyðarfirði fór í sundur á þremur stöðum og var lokaður í tvo sólarhringa. Malarvegurinn út í Helgustaðahrepp fór einnig illa.

Við Andapollinn á Reyðarfirði grófst vegurinn nánast í sundur þegar útfallið skipti um ham. Við brúna yfir Eskifjarðará og á Hrútá í Reyðarfirði fór malarefni undan brúarundirstöðum og klæðningu vegarins.

Dalsá í Fáskrúðsfirði gekk upp að vegi og skemmdi vegfláana. Í fyrri storminum féll aurskriða úr Grænavelli yfir veginn upp úr Reyðarfirði.

Umtalsverðar skemmdir urðu á Seyðisfjarðarvegi beggja megin í Fjarðarheiði, Hringvegi í Skriðdal, Skriðdalsvegi, Jökuldalsvegi í Hrafnkelsdal, Borgarfjarðarvegi um Vatnsskarð eystra og Fljótsdalsvegi auk skemmda víða á heimreiðum á þessu svæði.

Þá urðu einnig umtalsverðar skemmdir á Norðfjarðarvegi um Fagradal, við Eskifjörð, um Oddsskarð og líkt og nefnt hefur verið á Norðfirði, á Mjóafjarðarvegi, Helgustaðarvegi og Vattarnesvegi, Suðurfjarðavegi innan við Fáskrúðsfjörð, á Hringvegi um Breiðdalsheiði, í Breiðdal og við Breiðdalsvík, Norðurdalsvegi í Breiðdal, Hringvegi í Berufirði, Álftafirði og við Hvalnes.

Auk þess urðu skemmdir á heimreiðum víða á umræddum svæðum. Þá urðu einnig skemmdir á Axarvegi í Berufirði og á Hringvegi við Hornafjörð.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.