BRJÁN verðlaunað á Degi íslenskrar tónlistar
Blús-, rokk- og jazzklúbburinn á Nesi (BRJÁN) hlaut viðurkenningu á Degi íslenskrar tónlistar í gær fyrir elju við að byggja upp Tónspil í Neskaupstað sem tónleikastað og aðstöðu fyrir austfirskt tónlistarfólk.Það er Tónlistarmiðstöð Íslands sem stendur að baki verðlaununum. Nokkrar viðurkenningar voru veittar fyrir framlag til íslenskrar tónlistar og kallast sú sem BRJÁN hlaut Glugginn. Hana hlýtur klúbburinn fyrir að „fyrir að byggja upp hlýlegt heimili íslenskrar tónlistar í Tónspili í Neskaupstað og halda úti fjölbreyttri og metnaðarfullri tónlistardagskrá undanfarin ár,“ að því er segir í umsögn.
Félagar í BRJÁN innréttuðu í fyrra upp á nýtt húsnæðið sem áður hýsti verslunina Tónspil sem tónleikastað og æfinga- og upptökuaðstöðu fyrir tónlistarfólk. Nánar segir í umsögninni að um sé að ræða úrvalsaðstöðu sem um leið sé áfangastaður íslensks tónlistarfólks á Austurlandi og annarra sem leið eigi um.
„Það er frábært fyrir okkur sem höfum verið að puða við þetta að fá klapp á bakið og tekið sé eftir því sem við erum að gera. Við vonumst til að þessi viðurkenning verði til þess að enn fleiri taki eftir okkur. Þá á ég bæði við tónlistarmenn en líka þá sem styrkja tónleikahald því við viljum gera enn betur,“ segir Guðmundur Höskuldsson, formaður BRJÁN sem veitti verðlaunum viðtöku.
Nýja Tónspil var opnað um sjómannadagshelgina. „Við höfum fundið fyrir ótrúlega jákvæðum viðbrögðum í okkar samfélagi en fólk lagði bæði fram vinnu og peninga til að gera þennan stað að veruleika,“ segir Guðmundur.
Hann segir að samstarf við Menningarmiðstöð Fjarðabyggðar og Tónlistarmiðstöð Austurlandi hafi verið félaginu dýrmætt, meðal annars í gegnum tónleikaröðina Strengi sem fór af stað í haust. „Við erum eins og aðrir að kenna fólki að mæta aftur á tónleika eftir Covid. Við höfum ýmislegt í höndunum til að efla menninguna hér og ætlum að gera það. Við teljum að þessi verðlaun hjálpi okkur til þess.“
Mynd: Árni Torfason