Ýkti hraðatölur, sektir og fylgdi ökumönnum í hraðbanka

logreglanFyrrum lögreglumaður í umdæmi lögreglustjórans á Seyðisfirði var í gær dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir brot í opinberu starfi, fjársvik og rangar sakargiftir. Lögreglumaðurinn stundaði að sekta ferðamenn fyrir of hraðan akstur og stinga sektargreiðslum í eigin vasa.

Lögreglumaðurinn var ákærður fyrir 21 atvik og sakfelldur fyrir þau öll. Eitt þeirra átti sér stað sumarið 2013 en hin sumarið 2014.

Lögreglumaðurinn virðist hafa stundað að taka ferðamenn sem keyrðu aðeins of hratt en læsa hraðamælingatæki á þeim hraða sem hann ók lögreglubifreiðinni á við að elta þá upp til að ýkja hraðatölurnar. Tíu ákæruliðir falla undir þá lýsingu.

Rukkaði tvöfalt

Í öllum þeim atvikum, sem og öðrum tíu ákæruliðum krafðist lögreglumaðurinn mun hærri sekta en lágu að baki brotunum. Algegnt er að hann hafi rukkað tvisvar eða þrisvar sinnum meira.

Algengar upphæðir eru 40-60 þúsund þegar rétt sekt átti að vera 22-32 þúsund krónur. Hæsta greiðslan nam 108 þúsund krónum þegar rétt sekt átti að vera rúmar 67 þúsund.

Enda uppgötvuðust brotin við það. Erlendur ferðamaður kvartaði við ríkislögreglustjóra undan lögreglumanni við Seyðisfjarðarembættið sem hefði rukkað hann of mikið.

Að beiðni ríkislögreglustjóra hóf sýslumaðurinn á Seyðisfirði strax rannsókn á málinu. Fljótt beindist rökstuddur grunur að lögreglumanninum sem var vikið úr starfi nokkrum dögum síðar.

Frekari rannsókn málsins annaðist embættið á Eskifirði þar sem regla er að lögregluembætti rannsaki ekki mál eigin lögregluþjóna.

Upptökur úr hraðbönkum

Það studdist við upptökur úr lögreglubílum og gögn úr öðrum kerfum lögreglunnar. Gögnin sýna meðal annars ferðir bílanna aftur í tíma, bæði á vettvangi og við hraðbanka á Egilsstöðum.

Einnig voru fengnar upplýsingar um úttektir fjármuna úr hraðbönkum á Egilsstöðum tiltekna daga og myndskeið sem sýna umhverfi bankaútibúa þar. Flest brotin eiga sér stað í Fellabæ eða rétt norðan hans en í ellefu tilvikum eru nefndar staðsetningar bankaútibúa á Egilsstöðum þar sem lögreglumaðurinn krafðist og tók við greiðslu.

Sektaði fyrir 75 km/klst á 90 km svæði

Lögregluþjónninn gekk við öllum brotum sínum við yfirheyrslur, utan þess frá árinu 2013. Í því var hann kærður fyrir rangar sakargiftir með því að hafa stöðvað bifreið þar sem var 90 km hámarkshraði og haldið því fram að henni hefði verið ekið á 105 km hraða.

Lögregluþjónninn sagði bílinn hafa verið yfir hámarkshraða þegar hann hefði séð hann fyrst en ekki náð að festa hraðann inni í kerfinu. Ökumaðurinn hefði síðan hægt á sér þegar hann sá lögreglubílinn. Lögregluþjóninn sagðist því, samkvæmt sínum vinnureglur sem eru þó ekki í samræmi við reglur um hraðamælingar, að keyrt á eftir bílnum á þeim hraða sem hann hefði fyrst séð hann á og læst þá tölu í kerfinu.

Upptaka af atvikinu var lögð fram fyrir dómi. Á henni sést bílinn aldrei fara hraðar en 75 km/klst. Lögreglubíllinn fer að elta hann á eðlilegu hraða en fyrst dregur saman með þeim þegar lögreglan er komin á 105 km hraða. Þá er einnig hraðatalan læst.

Lögregluþjónninn slökkti á upptökunni áður en höfðu voru samskipti við ökumanninn.

Ökumaðurinn sagðist hafa mótmælt mælingunni á staðnum en greitt sekt þegar lögregluþjónninn féllst ekki á mótbárur hennar. Hún sendi rannsóknaraðilum ljósmyndir þar sem hún virðist sitja í lögreglubifreið og telja íslenska 5000 króna seðla.

Dómurinn taldi framburð lögreglumannsins í þessu tilfelli ótrúverðugan auk þess sem ekki var til vettvangsskýrsla frá atvikinu.

Brást traustinu

Alls er talið að lögregluþjónninn hafi stungið rétt rúmri einni milljón króna í vasann. Þótt fjárhæðirnar í hverju og einu tilviki séu „vart taldar verulegar" hafi hann með með háttsemi sinni brugðist því trausti sem gera mátti til hans vegna starfa hans. Háttsemin sé því mjög alvarleg.

Lögreglumaðurinn bar við andlegri vanlíðan þegar atvikin áttu sér stað og lýsti yfir iðran. Hann hóf störf hjá Seyðisfjarðarembættinu fyrri hluta árs 2013.

Í héraðsdómi Norðurlands eystra var hann því dæmdur í 10 mánaða fangelsi og ekki talin ástæða til að skilorðsbinda refsinguna. Hann þarf einnig að greiða skipuðum verjenda 225.000 í málsvarnarlaun.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.